Sigurvissan virðist að þessu sinni ekki vera í líkingu við þá sem sameinaði þjóðina 1986, þegar hver einasti Íslendingur var handviss um að ekkert lag gæti sigrað Gleðibankann sem hafnaði svo eftirminnilega í 16. sæti. Evrópa virðist nefnilega að þessu sinni sammála um um að Daði og Gagnamagnið hefðu lent að minnsta kosti mjög ofarlega í ár, ef ekki hreinlega sigrað. Þau unnu til dæmis söngvakeppni Austurríkis þegar besta lag keppninnar var valið þar í ár auk þess sem Think About Things var í efsta sæti eftir Eurojury-kosninguna, sem hefur fram að þessu verið ansi sannspá um sigurlag keppninnar. Íslendingar eru því eðlilega svekktir yfir því að Eurovision sé aflýst einmitt þegar átti að vinna keppnina í fyrsta skipti.
Álitsgjafar Alla leið, þau Karitas Harpa Davíðsdóttir og Jóhannes Þór Skúlason, og gestir þáttarins Einar Bárðarson og Guðrún Gunnarsdóttir voru alveg sammála um að setja Ísland í efsta sæti. Og Einar Bárðarson er eins og flestir spældur að missa af sigrinum. „Það er tvennt í þessu. Annars vegar að við Íslendingar missum af því að vinna Eurovision í ár og svo líka fyrir heimsbyggðina að missa af því að sjá performans hjá manni með hendur í vösum,“ segir hann. Einar bætir því við að það sé sárt að heimurinn hafi farið á mis við rosalega gott kósýpopp og Guðrún Gunnarsdóttir er sammála því að Daði sé kósý. „Hann er afslappaður, með báða fætur á jörðinni og sjarmerandi og falleg manneskja að innan og utan. Mér finnst ég skynja það þó ég þekki hann ekki neitt,“ segir hún. „Ég er algjörlega sannfærð um að hann hefði unnið.“
En heimurinn missti ekki alveg af lagi Daða eins og Guðrún bendir á enda benda hlustunartölur og vinsældarlistar um allan heim til þess að lagið ómi víða og muni gera út sumarið. Jóhannes segir þó fyrir sitt leyti sorglegast að fá ekki að sjá þau á stóra sviðinu eins og hann hafði verið spenntur að fá að gera. „Ég er viss um að þau hefðu haft ógeðslega gaman af því og það hefði skilað sér í sjónvarp,“ segir hann. „Þau eru ótrúleg öll og Daði ótrúlega einlægur. Nú er ég búinn að þekkja hann síðan 2009 og hann er nákvæmlega sami maður og ég kynntist þá. Hann hefur ekkert breyst þó hann hafi orðið frægur erlendis,“ segir Karitas að lokum.
En gleðin er ekki til einskis. RÚV ætlar svo sannarlega að hita upp fyrir Eurovision-gleðina í maí. Þjóðinni allri býðst að velja sín uppáhaldslög í keppninni í ár og vega atkvæði hennar 50% á móti atkvæðum álitsgjafa þáttanna. Einkunnir álitsgjafanna í Alla leið og kosning áhorfenda á vefnum ráða því hvaða 15 lög fá að keppa í sérstöku Eurovision-partíi sem verður slegið upp í beinni útsendingu fimmtudaginn 14. maí. Kosningin er í fullum gangi og fer hún fram fram hér.
16. maí verður svo haldin sam-evrópsk tónlistarveisla sem nefnist Eurovision: Europe Shine A Light, þar sem Daði mun koma fram ásamt keppendunum í ár og öðrum frægum Eurovision-förum fyrri ára sem sameinast í söng, glimmersprengjum og gleði.
Hægt er að horfa á Alla leið í spilaranum hér.