Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Byrja að safna blóði eftir helgi

03.05.2020 - 14:25
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan
Sóttvarnalæknir í samstarfi við Íslenska erfðagreiningu mun eftir helgi hefja blóðsöfnun í því skyni að kortleggja hversu útbreidd kórónuveiran var í samfélaginu.

Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis, á upplýsingafundi Almannavarna í dag. Þórólfur sagði ekki um vísindarannsókn að ræða heldur er blóðsöfnunin liður í könnun á vegum sóttvarnalæknis.

Þeir sem fara í blóðprufu af öðrum ástæðum verða beðnir um að gefa einnig blóð í þágu könnunarinnar og biðlar Þórólfur til fólks um að taka vel í það enda niðurstaðan þýðingarmikil. Blóðsýnin verða einungis notuð í þeim tilgangi að mæla mótefni gegn veirunni og verða blóðgjafar upplýsir um niðurstöður mælingarinnar um leið og þær liggja fyrir.

Þórólfur sagði í samtali við RÚV eftir fundinn að hann búist við að með þessu móti takist að ná til tuga þúsunda Íslendinga. Gangi það ekki eftir verði aðrar leiðir skoðaðar.

Dauðsföllum fækkað í faraldrinum

Alma Möller, landlæknir, sagði að fljótlega verði farið yfir hvernig tekist hefur til að forgangsraða í heilbrigðisþjónustunni á meðan faraldurinn stóð yfir. Sagði hún að heilbrigðisyfirvöld hafi haft áhyggjur af því að fólk myndi veigra sér við að sækja aðra þjónustu en enn sem komið er sé ekkert sem bendi til þess að eitthvað hafi farið aflögu. Til dæmis séu ekki dæmi þess að fólk hafi veigrað sér við að óska eftir læknisþjónustu vegna hjartaáfalla.

Þá hafi dauðsföllum ekki fjölgað í faraldrinum, heldur þvert á móti eru þau heldur færri. Skýringin gæti verið sú að öðrum smitsjúkdómum hefur fækkað, slys eru færri og samfélagið almennt í hægagangi.

Magnús Geir Eyjólfsson