Biður Brim um að gefa rafstöð eftir Sigvalda grið

Rafstöðvarhús á Vopnafirði eftir Sigvalda Thordarson. Byggt 1961.
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV

Biður Brim um að gefa rafstöð eftir Sigvalda grið

03.05.2020 - 08:53

Höfundar

Skiptar skoðanir eru um hvort rífa skuli um 60 ára gamalt rafstöðvarhús á Vopnafirði eftir Sigvalda Thordarson arkitekt. Óljóst er hve mikið kostar að laga húsið en eigandinn telur það glórulaust verkefni.

Það fer ekki mikið fyrir húsinu þar sem það lúrir við fiskimjölsverksmiðju Brims. Það var byggt árið 1961 utan um dísilrafstöðvar sem framleiddu fyrsta rafmagn Vopnfirðinga og geymir því hluta af atvinnusögu staðarins. Meirihluti hreppsnefndar vill hins vegar breyta deiliskipulagi og leyfa Brimi að kaupa húsið til niðurrifs. Það er nú geymsla trillukarla, þrengir aðgengi að vinnsludyrum og því hefur fylgt óþrifnaður. Minnihluti Samfylkingar lagðist hins vegar gegn niðurrifi.

„Húsið er teiknað af Sigvalda Thordarson, einum merkasta og kunnasta arkitekt 20. aldarinnar á Íslandi. Sigvaldi var Vopnfirðingur og í kauptúninu á Vopnafirði liggja aðeins eftir hann tvö verk og þetta hús er annað þeirra,“ segir Bjartur Aðalbjörnsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar í leyfi.

Hitt húsið er gamli hluti barnaskólans sem var tekinn í notkun 1967 þremur árum eftir að Sigvaldi lést. Hann var módernisti og skildi eftir sig tæplega 300 skráð verk. Listrænt, menningarsögulegt og umhverfislegt gildi rafstöðvarhússins er metið hátt og einnig varðveislugildi. Hins vegar hefur þakkanti verið bætt við og er húsið orðið lélegt. „Þetta hús er mjög illa farið. Það er mjög illa farin í því steypan. Þetta var hús sem var ókynt og þetta er óeinangrað hús. Það er farið að leka á þessu þakið. Það eru stálbitar í þaki sem eru múraðir í steypu. Þetta er glórulaust verkefni í sjálfu sér. Nema einhverjir opinberir aðilar komi að því, en við erum ekki að fara að gera þetta hús upp, það er alveg á hreinu,“ segir Jón Svansson, trillukarl og eigandi hússins.

Sumum Vopnfirðingum þykir sjónmengun af húsinu en aðrir benda á að það gæti litið mun betur út, ekki síst ef tekið yrði til á lóðinni. Húsið megi til dæmis nýta sem safn um atvinnusögu staðarins. „Óskastaðan væri auðvitað sú að Brim myndi snúa sinni skoðun við og einfaldlega kaupa húsið til þess að hampa því. Gera það upp og hampa þeim listamanni sem Sigvaldi var. Það væri hreinlega grátlegt ef Vopnfirðingar myndu sýna einum okkar mesta listamanni, honum Sigvalda, þá vanvirðingu að eyðileggja eitt hans verk á Vopnafirði,“ segir Bjartur.

Horfa á frétt

Tengdar fréttir

Menningarefni

Sigvaldahúsin í bænum

Menningarefni

Samfélagsmeðvitaður arkitekt