Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fresta viðhaldsverkefnum út af tekjuhruni

02.05.2020 - 12:18
Mynd með færslu
 Mynd: RUV/Eddi - RUV
Þjóðgarðsvörður á Þingvöllum segir viðbúið að fresta þurfi einhverjum viðhaldsverkefnum í sumar út af fyrirsjáanlegu tekjuhruni vegna Covid faraldursins. Til stendur að opna þjónustumiðstöðina á ný þegar samkomubannið verður rýmkað í næstu viku.

 

Um 1,3 milljónir ferðamanna heimsóttu Þingvelli á síðasta ári. Mikil uppbygging hefur átt sér stað í þjóðgarðinum á undanförnum árum til að bæta aðstöðu og koma í veg fyrir átroðning. Reistir hafa verið útsýnis- og göngupallar og fyrir tveimur árum var opnuð gestastofa á Hakinu. 

Einar Sæmundsen þjóðgarðsvörður á Þingvöllum segir viðbúið að þjóðgarðurinn verði fyrir verulegri tekjuskerðingu í ár út af fækkun erlendra ferðamanna.

„Rekstur þjóðgarðsins hefur reitt sig mikið á sértekjuhlutann og það má segja að það sé fyrirséð mikið tekjufall þar. En við höfum verið í samtali við ráðuneytið um að reyna að greiða úr þeim málum.  Við höfum sett á ís minni viðhaldsverkefni og minni framkvæmdir sem við höfum notað sértekjur í en það eru svona einskiptisaðgerðir sem er hægt að fresta og kannski ekki eitthvað sem þarf að gerist í ár,“ segir Einar.

Einar segir að þrátt fyrir þetta verði farið í mörg verkefni á næstu mánuðum.

„Við erum að byggja útsýnispall núna í austanverðum þjóðgarðinum og svo stendur til að reisa salernisbyggingar á nokkrum stöðum. Einnig erum við með í bígerð mjög vandaðan og skemmtilegan stíg um sunnanverða þinghelgina,“ segir Einar.

Þjónustumiðstöðinni og gestastofunni var lokað þegar samkomubannið tók gildi í mars en nú stendur til að opna á ný.

„En það er verið að stefna því að það opni í næstu viku. Það getur tafist eitthvað upp á Haki. Við fórum í smá viðhald þar og það eru líkur til að hluti hússins opni kannski aðeins síðar í vikunni en annars er þetta að fara opna núna í næstu viku sem hluti af því að koma samfélaginu aftur af stað,“ segir Einar. 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV