Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Dæmisaga og Draugabær í heimabíói

Mynd: Platform / Netflix

Dæmisaga og Draugabær í heimabíói

02.05.2020 - 14:21

Höfundar

Kvikmyndagagnrýnandi Lestarinnar þarf að leita á náðir streymisveitna í bíóleysi samkomubannsins og rýnir í myndirnar Platform og Ghost Town Anthology.

Gunnar Theodór Eggertsson skrifar:

Í mínum vinahópi hafa um árabil tíðkast regluleg bíókvöld sem hafa jafnframt þjónað hlutverki félagsmiðstöðvar og í raun ákveðinnar líflínu hjá gömlum vinum sem hittast æ sjaldnar. Á dagskrá eru oftast óvenjulegar eða áhugaverðar myndir sem gaman er að tala um, hvort sem þær reynast góðar eða slæmar, en síðustu tvö ár hafa kvöldin legið í mikilli lægð sökum þess hversu dreifður hópurinn er á milli landa og bæjarfélaga. Bíókvöldin eru nánast orðin að hátíðarviðburði sem blásið er til á jólum eða hvenær sem fleiri en þrír eru staddir í höfuðborginni hverju sinni.

Aldrei hefði okkur dottið í hug að halda kvöldin stafrænt til að ráða bót á þessum vanda, en í ástandinu sem nú ríkir var metmæting hjá hópnum, við héldum svokallað Netflix-partí og Zoom-fund á sama tíma til að glápa bæði á bíómyndina og hver á annan, sem var vissulega stórfurðuleg og merkileg reynsla. Eins og blanda af því að horfa á kvikmynd og sjá samtímis viðbragðsvídeó frá öðrum sem eru að horfa á það sama og þú, bíósalurinn speglaður fyrir miðju. En á tímum samkomubanns og lokaðra kvikmyndahúsa er þetta ein leið til að endurskapa kvikmyndasýningar heima í stofu og eins og fjölmargir aðrir hef ég leitað til streymisveitnanna eftir efni til að fylla upp í tómið sem bíóin hafa skilið eftir sig. Mig langar því að fjalla um tvær slíkar þjónustur og myndir sem ég hef séð þar nýlega.

Matarpallurinn

Sú fyrri er frá fyrrnefndu bíókvöldi þar sem við þurftum að sammælast um mynd á Netflix til að horfa alveg samstilltir yfir netið. Fyrir valinu varð spænskur vísindahryllir frá 2019, sjálfstæð framleiðsla sem Netflix tók upp á arma sína sem dreifingaraðili eftir að myndin sló í gegn á Toronto-hátíðinni síðasta haust. El hoyo, eða The Platform, Pallurinn, er dystópísk hugleiðing um græðgi, samhjálp og mannlegt ástand þegar fólk þarf að berjast fyrir lífi sínu ofan í ógnardjúpum pytti. Bardaginn á sér þó ekki stað sem hefðbundin slagsmál, heldur út frá misskiptingu auðs á milli hæða og grundvallarspurningunni: hver fær að borða nóg til að lifa af?

Á efstu hæð vinna kokkar hörðum höndum á hverjum degi að því að undirbúa hlaðborð fullt af fínasta mat sem er svo látið síga á palli jafnt og þétt niður á við, með stuttu stoppi á hverri hæð. Matarpallurinn er „platformið“ sem myndin dregur nafn sitt af, enda snýst líf fanganna á hæðunum alfarið um hvað bíður þeirra á pallinum þegar hann lendir á þeirra hæð. Þeir sem sitja á efstu hæðunum fá að borða eins og þá lystir og velja úr. Næstu fyrir neðan fá leifarnar frá þeim sem á undan átu og þannig sígur pallurinn áfram og maturinn klárast smátt og smátt eftir því sem hæðunum fjölgar og þær eru ansi margar, að minnsta kosti tvö hundruð og þegar svo djúpt er komið er hlaðborðið auðvitað löngu tómt og búið að sleikja síðustu molana af hverjum diski. Og þá hefjast líka slagsmálin, örvæntingin, mannátið. 

Pallurinn er kvikmynd sem hverfist í kringum ákveðna hugmynd og afar skýra táknfræði, nánast eins og dæmisaga. Misskipting auðsins, samhjálp og græðgi er meginumfjöllunarefnið og handritið virkar oft eins og heimspekileg klípusaga: ef við röðum öllum upp í svona kerfi, hvernig myndi samfélagið fúnkera þá? En samhliða heimspekipælingunum er Pallurinn líka mjög staðbundin kvikmynd og áþreifanleg, í þeirri merkingu að sem áhorfendur skynjum við sviðsetninguna mjög vel, nánast líkamlega. Eins og við getum fundið lyktina af bæði kræsingunum og viðbjóðinum. Sviðsmyndin og listrænt útlit myndarinnar gerir mjög mikið fyrir heildarverkið og hlaðborðið sjálft er eins og aðalpersóna, síbreytilegt og hluti af hverri senu, jafnvel þegar pallurinn er fjarverandi.

Með öðrum orðum tekst leikstjóranum Galder Gaztelu-Urrutia að breyta dæmisögunni í trúverðugan heim á skjánum og gera persónurnar mannlegar og meira en bara frásagnartól. Við fylgjum manni sem rankar við sér á einni hæðinni og þarf að kynnast kaldranalegum veruleikanum sem bíður hans: að borða leifar ofan frá og hugsa, eða hugsa ekki, um fólkið fyrir neðan sig. Stóra spurningin er hvort hægt sé að láta hlaðborðið endast svo allir fái bita, eða hvort eigingirnin og sjálfsbjargarviðleitnin muni alltaf koma í veg fyrir að við sjáum og skiljum víðara samhengið sem tengir okkur öll.

Yfirgengileg táknfræði

Pallurinn snýst nefnilega ekki bara um að hinir ríku éti þá fátæku, heldur hvernig þeir sem eru verr staddir þurfa að standa í öllu harkinu og berjast sín á milli, á meðan hinir ríku fylgjast aðgerðalausir með frá toppnum og hversu lítið þarf til að spilla fólki. Það sem gerir pyttinn svo áhugaverðan er nefnilega að fangarnir rótera á milli hæða á mánaðarfresti, þannig að þeir sem eru ríkir einn mánuðinn geta og munu ranka við sér á neðri pöllunum síðar meir, og ættu því að vilja leysa ójöfnuðinn í ljósi þess  en sjálfselskan og græðgin nær oftast yfirhöndinni og þeir sem vakna hjá hlaðborðinu eftir mánaðarhungur vilja sjaldnast gefa með sér.

Myndin útskýrir annars lítið og við vitum aldrei nákvæmlega hvaða tilgangi pytturinn þjónar eða hverjir stjórna honum. Þetta er að hluta til refsikerfi og að hluta samfélagstilraun, sumir eru þarna vegna þess að þeir hafa brotið af sér, aðrir koma sjálfviljugir til að hljóta ákveðin samfélagsfríðindi en enginn virðist almennilega átta sig á hvað bíður þeirra. Myndin virkar eins og blanda af öðrum myndum, s.s. Snowpiercer, Cube og auðvitað Átveislunni miklu, en nær algjörlega að skapa sína eigin veröld þarna niðri og ferðalagið frá efstu hæð og niður á botn er bæði hryllilegt og heillandi. Deila má þó um lokasprettinn, þar sem táknfræðin verður svo yfirgengileg að hún ber kvikmyndina næstum ofurliði, en endirinn er þó nógu óljós og opinn til að túlka á ólíka vegu og dregur ekki úr styrkleikum myndarinnar á heildina litið.

The Platform, Pallinn, má finna á Netflix, en aðrar streymisveitur eru auðvitað í boði og eina þeirra er vert að nefna fyrir þá sem vilja prófa eitthvað öðruvísi og kannski sérstaklega þá sem hafa fengið fráhvarfseinkenni á meðan Bíó Paradís stendur lokuð. MUBI er streymisveita með sérvöldum myndum og áherslu á fjölbreytileika, listrænt efni og kvikmyndasöguna. Þrjátíu myndir eru í boði hverju sinni og daglega endurnýjast listinn, þannig að ný mynd bætist við efst og ýtir þeirri neðstu út af. Úrvalið er úr öllum áttum og svo nokkur dæmi séu tekin býður þjónustan núna upp á fókus á Louis Malle, Jean-Pierre Melville og Aleksandr Dovzhenko, áherslu á indverska kvikmyndagerð, á subbumyndir frá Troma-kvikmyndaframleiðslunni og blöndu af nýjum og áhugaverðum myndum frá ýmsum löndum. Fyrr í mánuðinum tók Bíó Paradís höndum saman við Europa Cinemas og MUBI til að bjóða áskrifendum fréttabréfs síns upp á þriggja mánaða aðgang að streymisveitunni og því taldi ég við hæfi að minnast stuttlega á hana hér.

Ókennilegur kanadískur vetur

Innan um offramboðið af efni á stöðum eins og Netflix er hressandi að fá takmarkað úrval af sérvöldum myndum og láta mata sig á nokkrum konfektmolum, í stað þess að hámhorfa eða gleypiglápa. Ég skráði mig um helgina og valdi eina mynd nokkurn veginn af handahófi. Ég vildi sjá eitthvað nýtt og leikstjórann Denis Côté frá Quebec kannaðist ég við, því hann var gestur á RIFF 2007, hluti af Vitranaflokknum það árið, þá með sína aðra mynd. Côté hefur gert bæði heimildarmyndir og skáldaðar myndir en þessi nýjasta, Répertoire des villes disparues, Ghost Town Anthology, eða Sögur úr Draugabæ, er listræn tilraun til að gera afar óvenjulega hrollvekju.

Myndin er tekin á 16 millimetra filmu sem ljær efniviðnum mikla nánd, minnir bæði á heimildarmyndir og fjölskyldumyndir en skapar líka ákveðna fjarlæg, og sú blanda er einkennandi fyrir sérstakan tón myndarinnar. Litlaus filman gerir kanadíska veturinn dularfullan og ókennilegan. Draugabærinn er Irénée-les-Neiges í Quebec, þar búa 215 manns og í upphafi myndar deyr ungur maður í bílslysi sem virðist vera sjálfsvíg. Dauðsfallið snertir þorpið sem heild og við fylgjum sérstaklega fjölskyldu hans sem þarf að kljást við mikla sorg. Andi látna mannsins svífur yfir allri sögunni og eftir því sem á líður fara fleiri draugar að birtast á svæðinu.

Ghost Town Anthology er fjarri því að vera hefðbundin hrollvekja – og jafnvel fjarri því að vera hrollvekja almennt, þótt hún nýti sér ákveðna þætti. Myndin ögrar í raun einföldum skilgreiningum, er bæði raunsæisdrama um sorg og líf í hverfandi smábæ, táknsaga um innilokun og ótta við framtíðina, og jafnframt yfirnáttúruleg mynd um drauga sem ráfa um göturnar. Hún er hæg og draumkennd og dálítið sundurslitin til að byrja með en vinnur á og tekur óvænta stefnu í seinni hlutanum. Myndin er fjöltóna og það er erfitt að komast upp með slík brögð, að blanda formföstum stílum saman í eina heild, en leikstjórinn Côté gerir það vel og leikur sér að því að fara óhefðbundnar leiðir að efninu.

Draugarnir eru ekki álitnir ógn í þessum heimi, heldur hluti af sögu og lífi staðarins, landslaginu, og renna þannig saman við raunsæisdramað eins og lifandi fortíð eða minningar sem birtast þeim fáu sem enn lifa og búa í bæ sem er við það að hverfa. Myndavélin sýnir oft ekki draugana, heldur fókusnum frekar á andliti þess sem horfir, og það er í raun táknrænt fyrir eðli og efni myndarinnar sem heild. Draugarnir draga fram ólík viðbrögð hjá þorpsbúum, hvort heldur sem er uppgjöf fyrir sorginni, ótta við hið óþekkta, fordóma fyrir því sem er utanaðkomandi eða löngun til að stjórna því sem ekki verður stjórnað. Ghost Town Anthology er marglaga og snjöll draugasaga sem er ekki ógnvekjandi, en bætir upp fyrir það með frumlegri frásagnartækni og draumkenndri kvikmyndagerð. Hún er í boði í 24 daga í viðbót á MUBI áður en hún hverfur aftur út í kuldann eins og draugarnir í bænum.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Gott yfirlit um íslenska kvikmyndasögu

Kvikmyndir

Farsakennd fyllirísferð sem fjarar út þegar á líður

Kvikmyndir

Kúgandi valdakerfi kynferðislega rándýrsins í Hollywood

Kvikmyndir

Ljóðræn fegurð en langdregin og endaslepp