
Umskurn stúlkna gerð refsiverð í Súdan
Nær níu af hverjum tíu súdönskum konum og stúlkum hafa verið látnar undirgangast kynfæralimlestingu, samkvæmt gögnum Sameinuðu þjóðanna. Aðgerðin felur oftast í sér að hluti eða öll ytri kynfæri stúlkna eru fjarlægð, með margvíslegum alvarlegum og skaðlegum afleiðingum fyrir líkamlegt og andlegt heilbrigði þeirra.
Bráðabirgðastjórn við völd
Bráðabirgða- eða umskiptastjórn er við völd í Súdan, skipuð herforingjum og fulltrúum umbótaafla sem leiddu mótmæli gegn fyrrverandi forseta og ríkisstjórn landsins á síðasta ári. Meginhlutverk stjórnarinnar er að undirbúa lýðræðislegar kosningar í landinu, en einnig að vinna að öðrum málum sem til framfara horfa.
Stjórnin samþykkti breytingu á hegningarlöggjöfinni sem kveður á um að refsa skuli hverjum þeim sem uppvís verður að því að limlesta kynfæri stúlku eða konu, hvort sem er á heilbrigðisstofnun eða annars staðar, með þriggja ára fangelsi og sekt.
Fagna áfanganum en segja meira þurfa til
Réttindasamtök kvenna segja að refsingin hafi fælingarmátt og muni vafalaust draga úr umskurði stúlkubarna í landinu, en segja að meira þurfi til. Breyta þurfi rótgrónum hugsunarhætti, hefðum og venjum, ekki síst í hinum dreifðari byggðum, þar sem litið er á umskurð stúlkna sem ófrávíkjanlega forsendu þess að hægt sé að koma þeim í hjónaband.