Segir gagnrýni Bandaríkjaforseta ekki standast skoðun

01.05.2020 - 23:42
epa08209243 Tedros Adhanom Ghebreyesus, Director General of the World Health Organization (WHO), informs the media about the update on the situation regarding the novel coronavirus (2019-nCoV), during a new press conference, at the World Health Organization (WHO) headquarters in Geneva, Switzerland, 10 February 2020. The novel coronavirus (2019-nCoV), which originated in the Chinese city of Wuhan, has so far killed at least 910 people and infected over 40,000 others, mostly in China. The death toll from the novel coronavirus has surpassed the death toll from SARS epidemic of 2002-2003.  EPA-EFE/SALVATORE DI NOLFI
 Mynd: EPA-EFE - Keystone
Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri Alþjóðheilbrigðismálastofnunarinnar, segir stofnunina hafa brugðist við útbreiðslu COVID-19 faraldursins eins hratt og mögulegt var. Á blaðamannfundi í kvöld svaraði hann gagnrýni um að stofnunin hefði verið svifasein í upphafi útbreiðslunnar. Hann benti á að neyðarástandi hefði verið lýst yfir á heimsvísu 30. janúar og það hefði gefið ríkjum nægan tíma til að bregðast við.

Þegar neyðarástandi var lýst yfir voru 82 staðfest tilfelli utan meginlands Kína og engin dauðsföll höfðu verið rekin til veirunnar. Í dag eru rúmlega þrjár milljónir staðfestra tilfella á heimsvísu og 234 þúsund dauðsföll hafa verið rakin til COVID-19 faraldursins.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hóf í byrjun apríl að gagnrýna Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina fyrir viðbrögð hennar í byrjun faraldursins. Þá sakaði hann Ghebreyesus og stofnunina um linkind gagnvart Kínverjum. Nær öll ríki heims hafa fylkt sér á bak við stofnunina í faraldrinum og sum, eins og Bretland, hafa aukið árleg framlög sín til hennar.

Trump lýsti því aftur á móti yfir 7. apríl að Bandaríkin ætli að frysta öll framlög sín í 60 daga og sjá svo til. Það hefur talsverða þýðingu fyrir stofnunina þar sem bandaríkin greiða mest til stofnunarinnar, upphæð sem jafngildir um 8,3 milljörðum íslenskra króna árlega. 

Á blaðamannafundinum í dag sagði Ghebreyesus að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hafi haldið vel á spöðunum, bæði fyrir og eftir að neyðarástandi var lýst yfir. Fulltrúar hefðu verið sendir til Kína um leið og stofnunin fékk upplýsingar um ástandið en Bandaríkjaforseti hefur einmitt gagnrýnt stofnunina fyrir að hafa ekki sent sérfræðinga sína strax á vettvang í Wuhan í Kína.

Ghebreyesus beindi því einnig til ríkja á fundinum að fara þyrfti varlega í að aflétta samkomu- og útgöngubönnum. Áfram þyrfti að fylgjast vel með fjölda smitaðra og aðgerðir þyrftu að vera í samræmi við útbreiðsluna.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi