Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sagður hafa verið viðstaddur opnun áburðarverksmiðju

01.05.2020 - 22:50
epa08093382 A photo released by the official North Korean Central News Agency (KCNA) on 29 December 2019 shows North Korean leader Kim Jong-un presiding over the Third Enlarged Meeting of the Seventh Central Military Commission of the Workers' Party of Korea, in Pyongyang, North Korea.  EPA-EFE/KCNA   EDITORIAL USE ONLY
 Mynd: epa
Ríkisfjölmiðlar í Norður-Kóreu fullyrða að Kim Jong-Un, leiðtogi landsins, hafi sést opinberlega í dag í fyrsta skipti í tuttugu daga. Kim Jong-Un undirgekkst hjartaaðgerð um miðjan síðasta mánuð og í kjölfarið var hann sagður alvarlega veikur eða jafnvel látinn.

Síðast sást til hans í kóreska ríkissjónvarpinu 12. apríl en það vakti athygli þegar hann var hvergi sjáanlegur á árlegum hátíðarhöldum á afmælisdegi afa hans, Kim il-Sungs. Kínverskir sérfræðilæknar fóru til Norður-Kóreu í síðustu viku, að því er talið var til að hlúa að leiðtoganum eftir aðgerðina.

KCNA, ríkisfjölmiðill Norður-Kóreu, sagði frá því kvöld að Kim Jong-Un hefði í dag verið viðstaddur opnun nýrrar áburðarverksmiðju í landinu við mikinn fögnuð samlanda sinna. Þar hefði hann verið ásamt systur sinni, Kim Yo Jong, og öðrum háttsettum embættismönnum.

Frásögn KCNA hefur ekki verið staðfest en engar myndir voru teknar í meintri heimsókn leiðtogans í áburðarverksmiðjuna. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, vildi ekki tjá sig um fregnirnar þegar hann var inntur eftir því á blaðamannafundi í kvöld.