Fimm sjóðandi heit og sumarleg á föstudegi

Mynd með færslu
 Mynd: Dead Oceans - Khruangbin

Fimm sjóðandi heit og sumarleg á föstudegi

01.05.2020 - 11:05

Höfundar

Nú er vissara að bera á sig góða sólarvörn, að minnsta kosti 50, því Fimman er sjóðandi heit og sumarleg að þessu sinni. Það er boðið upp á tryllt taí-fönk, eitraða endurhljóðblöndun, vel tennta teknó-tæfu og -tarf og endað á sérbökuðum súkkulaðieftirrétti.

Khruangbin - Time (You and I)

Huggulegasta heimahljómsveit í heimi, taí-fönk tryllarnir í Texas tríóinu Khruangbin gáfu út löðrandi diskósmellinn Time (You and I) í vikunni. Lagið verður að finna á væntanlegri plötu sveitarinnar Mordechai sem kemur í lok júní.


Angel Olsen - All Mirrors [Johnny Jewel Remix]

Krúttlega indíbomban Angel Olsen hefur verið hress undanfarið og dúndrað út ábreiðum af til dæmis Roxy Music og Tori Amos frá heimili sínu í Michigan. Það sem er nú samt eiginlega skemmtilegast er nýtt rímix Johnny Jewel af frábæru lagi hennar All Mirrors sem vonandi gefur því þá athygli sem það á skilið.


Kelly Lee Owens - Night

Eins og Protomartyr hefur teknótæfan Kelly Lee Owens ákveðið að fresta útkomu plötu sinnar So Inner Songs fram í ágúst. Kelly er nú samt sem áður kraumandi heit þessa dagana því hún dúndraði frá sér laginu Night í síðustu viku, sem fylgir eftir frábærum síðustu lögum hennar Melt og svo samstarfi hennar við Jon Hopkins í laginu Luminous Sounds.


Four Tet - Insect Near Piha Beach

Breski teknótarfurinn Kieran Hobden sendi frá sér sína tíundu plötu um miðjan mars og sú heitir Sixteen Oceans. Til þess að fylgja henni úr hlaði þá gaf hann út smellina Teenage Bird Song og Baby en lagið Insect Near Piha Beach gæti orðið næst í röðinni, það er að segja ef eitthvað er að marka spilunartölur á Spottinu.


Shabazz Palaces - Chocolate Souffle

Tilraunakenndi rappdúettinn Shabazz Palaces frá Seattle er heldur betur á fáránlega fönkí slóðum í nýja laginu sínu Chocolate Souffle sem verður að finna á nýju plötunni þeirra The Don of Diamond Dreams. Tónlistarmyndbandið er líka gallsúr óður til snjallsímans sem virðist ekki alveg vera standa undir kröfum rapparans Emcee Ishmael Butler aka Butterfly sem sumir muna kannski eftir úr Digable Planets.


Fimm á föstudegi á Spotify