Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Draugakórinn kallar

Mynd með færslu
 Mynd: The Ghost Choir - .

Draugakórinn kallar

01.05.2020 - 11:46

Höfundar

The Ghost Choir hefur sent frá sér samnefnda plötu þar sem innihaldið eru draugalegar stemmur og Lynchlegur djass, eins og nafnið gefur til kynna. The Ghost Choir er plata vikunnar á Rás 2.

Ég vissi hvorki haus né sporð á téðu verkefni þar til Hannes Helgason, einn meðlima, vakti máls á þessu við mig einn fallegan sunnudag. Hann lýsti málinu og ég varð að vonum spenntur. Og með honum eru engir aukvisar, þeir Hálfdán Árnason sem spilar á bassa, Magnús Trygvason Eliassen á trommur, Pétur Hallgrímsson á gítar og Jóhannes Birgir Pálmason (Epic Rain) á hljómborð og rafhljóðfæri. Gaman að sjá Magnús þarna, en hans nafn er æði fátítt þegar kemur að trommuinnslætti á íslenskar plötur. Djók.

Rökkrið bætir og kætir

Innihaldið er hins vegar ekkert grín. Ósungnar stemmur sem leggjast yfir hlustandann þægilega, ljúfar hljóðmottur en ógnandi í senn. Ljós og skuggar en aðallega rökkur, rökkurgrúv eiginlega eins og meðlimir lýsa þessu sjálfir. Og þessi plata snýst fyrst og síðast um stemningu, andrúm sem er bæði dularfullt og seyðandi. „Vanishing Hitchhiker“ opnar plötuna og bara nafnið undirstingur þá kvikmyndalegu áru sem leikur um verkið. Hérna er líka tripp-hopp og hálfgerður spagettívestrafílingur. Spilarar stimpla sig inn. Magnús, jafnbesti trymbill landsins, er öruggur að vanda og þjónar stemningunni fullkomlega. Hálfdán gefur þessu smekklegan botn og Pétur – sem er sannarlega eldri en tvævetur í bransanum – fremur hljóðgaldra með gítarnum, lætur hann ýlfra og góla.

Hannes fer fimum höndum um hljómborðið á meðan Jóhannes klippir, skælir og verkar hljóðið eins og þurfa þykir. Opnunarlagið setur tóninn algerlega. En þetta eru ekki bara hæglyndisstemmur. „Man in Grey“ er leitt áfram af einkar svölum súrkálstrommum og hljómborðin eru nánast teiknimyndaleg. Skemmtilega gáskafull. „Tulip Staircase“ er og í þessum rökkurgír, en það er eins og „Man in Grey“, nett skringilegt líka. Framvinda er alla jafna naumhyggjuleg, „The Watcher“ er myrkraópus og maður sér fyrir sér dramatíska senu í evrópskri bíómynd frá 1982.

Stemming alla leið

„The Murdered Peddler“ byrjar með flautuðum lagstúf (virðist vera) og rúllar svo af stað í „Lynch“-legan stofudjass hvar ekkert er nákvæmlega eins og það á að vera. „Hoia Baciu“ er einn eitt sýnidæmið um mátt og meginn Magnúsar, og þarna, líkt og í upphafslaginu, koma þeir félagar glæsilega saman. Bassi, orgel, gítar, trommur og áhrifshljóð í fullkomnu jafnvægi. Svipað má segja um „William Mumbler“ og plötunni er slitið með „Unexpected Guest“, drungalegt og höfugt en aldrei einfalt einhvern veginn. Vel heppnað verk og vel til fallið í stemningsmyndun á síðkvöldi en þó sérstaklega er hausta tekur.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Einlægt, óskrifað blað

Popptónlist

Einlægt nútímapopp

Tónlist

Einlægt og ástríðufullt

Popptónlist

Dramatískt og einlægt