Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vegur til Mjóafjarðar á kafi en Öxi opnast í dag

30.04.2020 - 13:04
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Þó kominn sé áttundi dagur sumars og vorfuglar syngi er vegurinn til Mjóafjarðar á Austurlandi enn á kafi í snjó og aðeins fært sjóleiðina. Blásarar ljúka við að opna veginn yfir Öxi í dag en þar eru 2 metra há snjógöng á köflum.

Snjóföl blasti við árrisulum íbúum á Egilsstöðum í morgun og hálkublettir eru á Fjarðarheiði til Seyðisfjarðar.

Lítið spurt um Hellisheiði

Hellisheiði eystri milli Héraðs og Vopnafjarðar er ófær en samkvæmt upplýsingum  frá vegagerðinni er lítið spurt um hana eftir að slitlag kom á Vopnafjarðarheiði. Hún hefur helst verið ferðmannavegur undnafarin ár og nú eru þeir horfnir.

Komnir í gegum 2 metra þykka skafla á Öxi

Beðið er með óþreyju eftir að Öxi verði opnuð milli Héraðs og Djúpavogs enda styttir hún hringaveginn um 70 kílómetra. Birgir Árnason, rekstrarstjóri Vegagerðarinnar á Höfn, færir okkur þau tíðindi að mokstri sé að ljúka og líklega verði hægt að fara um Öxi síðdegis í dag. Sumum þykir seint farið af stað í að ryðja en Birgir segir að umferð sé lítil og því lítill þrýstingur að opna snemma. Þá séu snjóalög óvenju þykk sérstaklega í brekkunum sunnanmegin og göng allt að tveggja metra djúp.

Þyrftu að moka til Mjóafjarðar eftir minni

Engin mokstur er hins vegar hafinn á Mjóafjarðarheiði og ekki búið að ákveða hvenær verður mokað. Mjófirðingar treysta enn á ferjuna sem gengur til Neskaupstaðar tvisvar í viku út maí. Sigfús Vilhjálmsson á Brekku setti undir sig snjósleða og brá sér yfir heiðina. „Það er bara hvítagaddur þarna uppi. Helvíti mikill snjór. En vandamálið er að það sjást ekki stikur á löngum kafla og það er mjög vont og tefur svo fyrir að þurfa að leita að veginum þegar verið er að moka. Oft hafa verið hækkaðar stikur að hausti og ef maður sér í toppna að svoleiðis stikum sem búið er að hækka þá er maður nú helvíti góður en núna eru ekki nema einhverjar örfáar stikur sem sjást og svo langir kafla sem sést bara ekki neitt. Bara hvítt.“

Má þá segja að Vegagerðin hafi týnt veginum?

„Ég held að Guð almáttugur hafi falið veginn fyrir Vegagerðinni. Eigum við ekki að orða það þannig?“

Og hvernig fer um ykkur Mjófirðinga núna, er ekki komið vor í fjörðinn þó það sé snjór uppi á fjalli?

„Jú, jú. Það er allt orðið autt hér í neðra eins og maður segir og meira að segja farið að slá grænum lit hér á tún þannig að þetta lítur ekkert svo rosalega illa út,“ segir Sigfús Vilhjálmsson á Brekku í Mjóafirði.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV