Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Óvíst hvort og þá hve mikið gæði náms rýrna

30.04.2020 - 15:53
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan
Skólar þurfa að sýna sveigjanleika og skilning vegna áhrifa COVID-19 faraldurins, segja skólastjórnendur. Meðal annars þarf að sporna gegn brottfalli. Erfitt sé að segja til um hvort það leiði til þess að gæði náms rýrni.

Menntamál voru í brennidepli á upplýsingafundi Almannavarna í dag. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sagði að áhersla hefði verið lögð á gæði í viðbrögðum við faraldrinum. Hann sagði að í hverri námsgrein hefði verið lagst í vinnu við að meta hversu mikið yrði að vera inni í náminu. Verkleg kennsla var snúin. „Í sumum tilvikum þá færðist hún bara aftur fyrir og jafnvel á næsta misseri. Í sumum tilvikum var hún leyst öðruvísi. Þá er spurningin: Rýrnuðu gæðin? Sennilega eitthvað. Ég bara get ekki svarað nákvæmlega hversu mikið. Við urðum bara að vera lausnamiðuð, það er á hreinu.“

Jón Atli sagði að miklum tíma hefði verið varið í að skipuleggja námsmat svo það væri eins gott og hægt er. Hann sagði erfitt að segja til um hvort að slegið hefði verið af kröfum.

Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans, sagði að meðal annars hefði þurft að vinna gegn brottfalli nemenda. „Það hefur verið lögð mikil áhersla á það við kennara og allt annað starfsfólk að við verðum að sýna sveigjanleika. Það skiptir öllu máli að halda krökkunum í skóla, valda ekki of miklu álagi. Hvort að það kemur niður á því að einhver náði ekki að læra einhver eitt eða tvö atriði: það verður þá bara að hafa það. Stóra atriðið er að gera allt sem við getum og halda svo áfram.“

Hildur kvaðst vona að gæði náms hefðu ekki rýrnað þótt það hefði óneitanlega tekið breytingum.