Mikilvægt að vera þar sem passað er upp á þín réttindi

Mynd: RÚV / RÚV

Mikilvægt að vera þar sem passað er upp á þín réttindi

30.04.2020 - 15:36
Margrét Halldóra Arnarsdóttir, formaður Félags íslenskra rafvirkja, segir mikilvægt að vera með sín réttindi á vinnumarkaði á hreinu. Hún ræddi stéttabaráttu, réttindi og rafvirkjun í Núllstillingunni í dag.

Margrét er fyrsta konan til að vera formaður Félags íslenskra rafvirkja en hún ákvað að fara í rafvirkjun þegar hún stóð á tímamótum í sínu lífi. Hún hafði prófað háskólanám og fannst það ekki vera fyrir sig en langaði samt að mennta sig í einhverju, hafði alltaf notið þess að gera hluti í höndunum og ákvað að slá til og fara að læra rafvirkjun. „Þú getur ekki sagt að eitthvað sé ekki fyrir þig ef þú hefur aldrei prófað það.“

Hún ákvað svo að fara út í stéttabaráttu sem hún segir að fáum finnist mikilvæg að hafa áhuga á, það sé hins vegar mikilvægt. Það sé gott að vita hvaða launaflokki maður tilheyri en ef maður veit ekkert hverjir launaflokkarnir eru þá veit maður auðvitað ekki í hvaða flokki maður ætti að vera.  

„Maður þarf auðvitað ekki að vita allt nákvæmlega strax, ég vissi ekkert hvað tölurnar á launaseðlinum mínum þýddu fyrst þegar ég fékk hann.“ 

Þá segir hún sömuleiðis gott að vita í hvaða stéttarfélagi maður sé og vita að maður geti haft samband við það ef eitthvað kemur upp á. „Þetta snýst um að vera þar sem verið er að passa upp á þín réttindi og verið að gera kröfur sem henta þínu starfi.“

Viðtalið við Margréti má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.