Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Geymslurými Listasafns Íslands sprungið

Mynd: RÚV / RÚV

Geymslurými Listasafns Íslands sprungið

30.04.2020 - 08:39

Höfundar

Listasafn Íslands verður opnað aftur á mánudag. Þá verður boðið upp á þá nýjung að starfsemi safnsins sem alla jafna fer fram bakvið tjöldin, svo sem skráning og forvarsla, verður dregin fram í opna sýningarsali. Ástæðan fyrir þessari nýbreytni er einföld. Húsnæðið er sprungið.    „Við höfum of lítið húsnæði fyrir varðveislu og í rauninni of lítið til þess að handleika safnkostinn.

Listasafn Íslands á um 13.500 verk og nú gefst gestum tækifæri til að sjá hluta þeirra meðan þau eru skráð, metin, ljósmynduð og jafnvel þegar gert er við þau eftir kúnstarinnar reglum.  

„Við erum að undirbúa okkur fyrir að geta veitt gestum innsýn í þessi störf sem eru svo mikilvæg og eru algjörlega grunnurinn að okkar tilveru sem safns, þjóðarsafns Íslendinga, “ segir Harpa Þórsdóttir safnstjóri. „Það er náttúrulega hluti af því að vera safn að segja betur frá. Við höfum þetta tækifæri núna að vinna fyrir opnum tjöldum. Það eru sérfræðingar í ólíkum störfum sem að að þurfa að hlúa að þessum safnkosti sem er mjög fjölbreyttur. “ 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Harpa dregur ekki fjöður yfir að þótt það sé spennandi að gefa gestum inn í starfsemina bakvið tjöldin sé tilefnið ekki að góðu.  

„Við höfum of lítið húsnæði fyrir varðveislu og í rauninni of lítið til þess að handleika safnkostinn. Við þurfum að geta tekið hann fram. Við erum búin að sprengja allt geymsluhúsnæði af okkur og erum að nýta núna tækifærið og fara yfir öryggisþætti og umhverfisþætti í rýmunum sem við höfum. Við þurfum að geta athafnað okkur og sjáum þann eina kost í stöðunni að taka sýningarsal og fleiri sali í húsinu undir þetta verkefni tímabundið. “ 

Harpa bendir á að það sé eðli þjóðlistasafna að geymsluhúsnæði þeirra þurfi að stækka með safninu.  

„Og við sjáum að frá því að safnið kom hingað á Fríkirkjuveginn fyrir rúmum 30 árum að þá hefur ekki orðið sú þróun, stækkun á varðveisluhúsnæði, sem ég og forverar  mínir höfum óskað eftir. En núna getum við ekki beðið lengur. Við erum í samráði við yfirvöld, við okkar ráðuneyti um úrbætur en þær eru orðnar mjög brýnar.“