Dorrit Moussaieff greindist með COVID-19 á Íslandi

30.04.2020 - 14:04
Mynd: RÚV / RÚV
Dorrit Moussaief, fyrrverandi forsetafrú, veiktist af COVID-19 og þakkar fyrir að hafa verið á Íslandi á meðan að hún var veik. Hún segir íslenska fjallaloftið, hreina vatnið, orkuna og heilbrigðiskerfið spila lykilþátt í að ná heilsu aftur. Dorrit tekur einnig fram að Ólafur Ragnar, hafi ekki smitast af COVID-19.

„Blessunarlega var ég á Íslandi,“ segir Dorrit um hvar hún var þegar hún greindist með veiruna. „Ég veit að þetta hefur mjög slæm áhrif á marga. Ég svaf í fimm daga og man lítið eftir þeim, ég var með nokkuð háan hita og vöðvaverki. Ég var í algjörri einangrun. En sökum frábærrar umönnunar sem ég fékk frá læknunum á Íslandi, jafnvel þó ég hafi ekki þurft að hitta þá töluðu þeir við mig í gegnum síma, gleður mig að segja að ég hef náð fullri heilsu. Prófin frá Íslenskri erfðagreiningu eru núna neikvæð,“ segir Dorrit um veikindin. 

Dorrit, sem er 70 ára gömul og glímir við sjálfsofnæmissjúkdóm, segist aldrei hafa liðið betur, verið hraustari og í betra líkamlega formi eins og eftir dvölina á Íslandi. Hún hefur verið dugleg að fara í göngutúra og segir að íslenska náttúran spili stórt hlutverk í að ná fullum bata. „Ekki bara göngurnar. Hreint loft og hreint vatn. Öll orkan á Íslandi er lykilþáttur sem við ættum öll að nota. Við megum ekki vanmeta hana.“

Þrátt fyrir að Dorrit noti samfélagsmiðla talsvert og er oft áberandi í umræðunni spurðist ekki út að hún hefði greinst með veiruna. Hún segist þó ekki hafa verið að halda þessu leyndu. „Nei, ég lét ekki fjölmiðla vita. En af hverju ætti þetta að vera leyndarmál? Ég var auðvitað ekki að tala við neinn en ég lét vini mína vita. Þetta er ekkert til að skammast sín yfir,“ segir Dorrit að lokum. 

Nánar er rætt við Dorrit í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 milli 16 og 18 í dag. Þar ræðir Dorrit nánar um veikindi sín og fjallar um hvernig Íslendingar eigi að gjörbreyta um ferðamannastefnu til að laða að fjársterka ferðamenn á þessum tímum. 

andriv's picture
Andri Freyr Viðarsson
orrifr's picture
Orri Freyr Rúnarsson
vefritstjórn
Síðdegisútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi