Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Brottfall úr námi ekki ólíklegt segir háskólarektor

Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun / RÚV
Búast má við einhverju brottfalli nemenda í Háskóla Íslands vegna kórónuveirufaraldursins. Þetta segir Jón Atli Benediktsson háskólarektor. Hann segir ljóst að síðustu vikur hafi verið gríðarlega erfiðar fyrir marga nemendur. 

Tilslakanir voru gerðar vegna COVID-19

Tilslakanir á samkomubanni frá 20 upp í 50 manns sem taka gildi á mánudaginn hafa einhver áhrif á þá um fjörutíu þúsund nemendur sem stunda nám í framhalds- og háskólum landsins. En þó ekki eins miklar og ef kennsla væri í fullum gangi því nú er prófatími. Í Háskóla Íslands verða til dæmis lessalir og matstofur opnaðar með tveggja metra reglunni. 

„Við þurfum að hafa í huga að þetta er náttúrulega heimsfaraldur sem er við að etja og þetta eru mjög sérstakar aðstæður. Svo það er alveg ljóst að við þurftum að veita einhverjar tilslakanir,“ segir Jón Atli Benediktsson háskólarektor. 

Mörg námskeið voru endurskipulögð og í sumum tilvikum var verklegi hlutinn færður til haustmisseris.

Lágmarka brottfall en halda uppi gæðum

Einkunnagjöf verður að mestu óbreytt en í undantekningatilfellum verður námsmatið staðist eða fallið. 

Hvað með brottfall nemenda, þetta hlýtur að taka mikið á?

„Ja, það er líklegt að það hafi verið eitthvað brottfall. Það er náttúrulega alltaf eitthvað brottfall í gangi en eitthvað aukið brottfall. En við leituðumst eftir því með þeim úrræðum sem við höfðum við skipulagningu námsins að koma til móts við nemendur og þannig lágmarka brottfallið en halda uppi gæðunum.“

Erfitt mörgum stúdentum

Í könnunum sem Stúdentaráð hefur látið gera meðal nemenda í faraldrinum kemur fram að hátt hlutfall stúdenta segir líðan sína slæma og kvíðann töluverðan. 

„Þetta er bara gríðarlega erfitt fyrir marga. Og þess vegna höfum við verið með úrræði á móti, aukið slíka þjónustu fyrir nemendur og reynt að koma til móts við þá eins og við getum. En við vitum að þetta er erfið staða,“ segir Jón Atli sem sendi tilkynningu til nemenda og starfsfólks HÍ eftir hádegi í dag.

Luku ótrúlega miklu verklegu í fjarkennslu

Um 2600 nemendur í Tækniskólanum hafa flestir getað lokið náminu í fjarkennslu. 

„Það hafa reyndar ótrúlega margir sem eru í verklegu námi getað lokið töluvert miklu yfir netið,“ segir Hildur Ingvarsdóttir skólameistari Tækniskólans.

Um 800 nemendur þurfa þó að mæta í skólann næstu tvær vikur rúmar til þess að klára. Þeirra á meðal nemendur í hársnyrtigreinum: 

„Það hafa verið send heim til nemenda dúkkuhöfuð, það er gert permanett, klippingar og allt mögulegt yfir netið. En núna koma þau inn.“

Næsti höfuðverkur hjá skólameisturum framhaldsskólanna er svo hvernig skuli hátta útskriftinni svo hún verði sem hátíðlegust, segir Hildur. Í Tækniskólanum verður hún undir maílok: 

„En ekki í Háskólabíói með þúsund manns, augljóslega.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Hildur Ingvarsdóttir.