Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

„Algjörlega óboðlegt“ ef verkfall truflar skólahald

Sigurður Ingi Jóhannsson - Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Sveitarstjórnarráðherra segist skilja áhyggur barna af því að geta ekki mætt í skólann í næstu viku komi til verkfalls. Ráðherra segir það óboðlegt verði skólahald ekki með eðlilegum hætti í fjórum sveitarfélögum sem verkfall tæki til. Hann segir það óskiljanlegt hvers vegna ekki hafa náðst samningar.

Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga sagði í fréttum RÚV í gær að semjist ekki í kjaradeilu Eflingar við sveitarfélög gæti Alþingi þurft að setja lög á verkfall sem hefst að óbreyttu á þriðjudag. Komi til þess þarf að fella niður kennslu í nokkrum grunnskólum abyggingum og leikskólum í fjórum sveitarfélögum: Kópavogi, Mosfellsbæ, Seltjarnarnesi og Ölfusi.

Sigurður Ingi Jóhannsson sveitarstjórnarráðherra telur brýnt að samningar náist sem fyrst. 

„Ég held að það sé bara nauðsynlegt að samningsaðilar á þessu sviði, þ.e.a.s sveitarfélögin sem um ræðir og Efling hins vegar, setjist niður og klári þetta. Það er öllum ljóst hverjar aðstæðurnar eru í samfélaginu og það er algjörlega óboðlegt að skólahald sé ekki með eðlilegum hætti,“ segir Sigurður Ingi.

Telur þú koma til greina að ríkið stigi inn í þetta og setji lög?

„Eins og ég segi sú krafa hefur ekki komið til mín. Ég hef bara séð hana í fjölmiðlum. Ég ætlast til þess að samningsaðilar nái niðurstöðu í málinu,“ segir Sigurður Ingi.

Grunnskólabörn hafa leitað til umboðsmanns barna og lýst áhyggjum sínum af því að þau geti ekki mætt í skólann komi til verkfalls.

„Ég skil afstöðu barna og þess vegna skil ég ekki af hverju fólk getur ekki klárað þetta verkefni,“ segir Sigurður Ingi.

Samninganefndir Eflingar og Sambands íslenskra sveitarfélaga hittast á fundi hjá ríkissáttasemjara klukkan þrjú í dag og í dagskrá sést að gert er ráð fyrir þriggja klukkustunda fundi.