Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

51 hópuppsögn tilkynnt – 4.210 manns sagt upp

Mynd með færslu
 Mynd:
Alls hefur 51 fyrirtæki tilkynnt um hópuppsagnir til Vinnumálastofnunar í uppsagnahrinunni vegna heimsfaraldurs kórónaveirunnar. Lang flest fyrirtækin sem segja upp hópi fólks á einu bretti starfa í ferðaþjónustu eða geirum tengdum henni.

Alls hefur 4.210 manns verið sagt upp þessum hópuppsögnum. Þar af er hópuppsögn Icelandair lang stærst. Þar fengu 2.140 starfsmenn uppsagnarbréf fyrir mánaðamótin.

Enn er viðbúið að einhverjar tilkynningar eigi eftir að berast Vinnumálastofnun. Unnur Sverrisdóttir, forstjóri stofnunarinnar, sagði í hádegisfréttum í dag að þetta séu breytilegar tölur. Þær [tilkynningarnar] eru að berast okkur jafnt og þétt og svo eru fyrirtækin að breyta og leiðrétta tilkynningarnar þannig að endanleg tala liggur ekki fyrir fyrr en eftir helgi,“ segir hún.

Uppsagnirnar byrja ekki að telja inn í tölur um atvinnuleysi fyrr en að uppsagnarfrestur fólks er liðinn.

Nánar verður fjallað um uppsagnirnar í Speglinum í útvarpinu klukkan 18 og í sjónvarpsfréttum klukkan 19.