Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Um 342 milljónir í fyrstu endurbætur á Hegningarhúsinu

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Framkvæmdir á endurgerð Hegningarhússins við Skólavörðustíg hefjast í sumar. Unnið verður að viðgerðum á ytra byrði hússins og nánasta umhverfi fyrir allt að 342 milljónir króna. Það er gert á grundvelli fjárfestingarátaks stjórnvalda til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu með arðbærum fjárfestingum sem auka eftirspurn eftir vinnuafli. 

Um er að ræða samstarfssamning Ríkiseigna og Minjaverndar varðandi fyrsta áfanga endurgerðarinnar. Húsið er friðað samkvæmt lögum um menningarminjar og viðgerð hússins þarf að taka mið af upprunalegri gerð þess, bæði hvað efnisval og handverk varðar.

Í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu segir að samhliða samningnum er unnið að því í samstarfi við Minjavernd að tryggja aukið fjármagn til að ljúka endurgerð Hegningarhúss að utan, innan, hugsanlegrar byggingar í fangelsisgarði og frágangi lóðar hússins.

„Endurgerð að innan mun jafnframt miðast við að húsið verði opið almenningi og að starfsemi í húsinu geti staðið undir rekstri hússins og öðrum kostnaði sem af eigninni stafar til framtíðar,“ segir í tilkynningu.