Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gray Line segir upp 107 starfsmönnum

Mynd með færslu
 Mynd:
Rútufyrirtækið Gray Line sagði í dag upp 107 starfsmönnum. Þetta staðfestir Þórir Garðarsson, stjórnarformaður fyrirtækisins, við fréttastofu, en Vísir sagði fyrst frá uppsögnunum.

„Þetta var erfið ákvörðun. Við erum með starfsmenn sem hafa unnið hjá okkur í allt að 30 ár. Mikið af góðu og hæfileikaríku fólki sem okkur þykir vænt um og þykir vænt um fyrirtækið,“ segir Þórir. „En það er ekkert félag sem þolir það að vera tekjulaust mánuðum saman,“ bætir Þórir við og segir að Gray Line hafi verið tekjulaust frá 15. mars og ekki hreyfst bíll.

Þórir segir stjórnendur fyrirtækisins þó hafa fulla trú á íslenskri ferðaþjónustu. „Þegar fer að rofa til hefur Ísland upp á mjög mikið að bjóða. Við getum boðið ferðamönnum að ferðast á þessu fallega landi,“ segir Þórir og bendir á að þegar sá tími kemur þurfi að vera til staðar öflug fyrirtæki. Ekki sé vitað hvenær sá tímapunktur verður en vonandi skýrist myndin um mánaðamótin maí/júní og vonandi gerist eitthvað með haustinu. „Það eru tækifæri í vetrarferðaþjónustu á Íslandi,“ segir Þórir.

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV