Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fimmtán hópuppsagnir í dag

Mynd með færslu
 Mynd: Vinnumálastofnun
Fleiri misstu vinnuna í hópuppsögnum í dag en nokkru sinni fyrr á einum degi. Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, býst við að enn bætist við, í kvöld og á morgun.

„Í dag hafa borist tilkynningar um hópuppsagnir frá 15 fyrirtækjum. Þar undir eru 7-800 einstaklingar. Þetta er langmest, nánast allt ferðaþjónustutengt; annaðhvort fyrirtæki í ferðaþjónustu eða fyrirtæki sem tengjast henni,“ segir Unnur. „Ég held að okkur hafi ekki borist svona margar hópuppsagnir á einum degi áður,“ bætir Unnur við. 

Uppsagnir Icelandair eru ekki inni í þessum tölum, en þar missa rúmlega tvö þúsund manns vinnuna um mánaðamótin. Með þessum 15 hópuppsögnum í dag hafa nærri 3 þúsund manns misst vinnuna á tveimur dögum.

Í dag hefur rútufyrirtækið Gray line sagt upp rúmlega 90 prósentum starfsmanna eða 107 manns. Auk þess hefur Arctic adventures sagt upp öllu sínu starfsfólki, yfir 150 manns. Kynnisferðir hafa líka þurft að segja upp 150, sem eru 40 prósent starfsfólks. 

30 starfsmönnum var sagt upp hjá Fríhöfninni í dag. Þá hefur starfshlutfall hjá rúmlega 100 verið lækkað. Þá hefur Hótel saga þurft að segja upp öllu sínu starfsfólki eða sextíu manns.

Ekki fást upplýsingar um hvort allar þessar uppsagnir séu inni í tölum Vinnumálastofnunar fyrir daginn í dag.

Ríkisstjórnin kynnti meðal annars breytingar á hlutabótaleiðinni svokölluðu í gær. Fyrirtæki geta nú sótt um stuðning úr ríkissjóði til að greiða hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

Unnur telur að það hafi verið auðveldara fyrir fyrirtæki að segja fólki upp eftir aðgerðirnar sem stjórnvöld kynntu í gær. „Já örugglega. Fólk á sinn rétt á sínum uppsagnarfresti og getur líka unnið þann tíma á meðan,“ sagði Unnur. 

Unnur býst við að fleiri tilkynningum um uppsagnir í kvöld og á morgun. 

Atvinnuleysi í mars mælist 9,2%. Vinnumálastofnun hefur spáð allt að 17 prósenta atvinnuleysi í apríl. 

Unnur segist ekki gera sér grein fyrir hvort framvindan sé í takti við spár Vinnumálastofnunar. „Við vorum ekki búin að spá mikið. Við vorum búin að finna fyrir þessum áhyggjum fyrirtækja. Þau voru komin í veruleg vandræði, líka að greiða fólki laun í hlutabótaleiðinni,“ segir Unnur.