Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

COVID-19 neyðir akademíuna til að breyta Óskars-reglum

29.04.2020 - 06:34
Mynd með færslu
 Mynd:
Bandaríska kvikmyndaakademían sér sig knúna til að víkja frá einu af meginskilyrðum sínum fyrir því að kvikmyndir teljist gjaldgengar í slaginn um Óskarsverðlaun. Ástæðan er sú sama og fyrir svo mörgu öðru þessa dagana: COVID-19.

Hingað til hefur það verið ófrávíkjanleg forsenda þess að kvikmynd geti keppt um Óskarinn, að hún hafi að lágmarki verið sýnd í kvikmyndahúsi í Los Angeles í eina viku.

Kvikmyndahús meira og minna lokuð

Í fréttatilkynningu frá stjórn akademíunnar í gær kemur fram að frá þessu verði vikið í ár - en aðeins í ár, þar sem kvikmyndahús eru meira og minna lokuð um allan heim vegna kórónuveirufaraldursins. Þetta þýðir að nú geta framleiðendur kvikmynda sem einungis verða sýndar á streymisveitum líka keppt um þetta hnoss.

„Akademían er sannfærð um að engin leið sé betri til að upplifa töfra kvikmyndanna en að sjá þær í kvikmyndahúsi. Þrátt fyrir þetta, þá neyðir hinn sögulega sorglegi heimsfaraldur okkur til að gera undantekningu frá reglum okkar um verðlaunin,“ segir David Rubin, formaður akademíunnar, í fréttatilkynningunni.

Verða að hafa verið aðgengilegar í tvo mánuði hið minnsta

Í stað reglunnar um minnst vikulangar sýningar í Los Angeles - þar sem kvikmyndahús hafa verið lokuð síðan um miðjan mars og ekki er útséð um hvenær þau verða opnuð á ný - kemur ákvæði um að myndirnar skuli hafa verið aðgengilegar á streymisveitum í minnst 60 daga, og að streymisveitan sé aðili að kvikmyndaakademíunni.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV