Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Skiptar skoðanir um skilyrði fyrir ríkisaðstoð

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar og Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, telja brýnt að þau skilyrði verði sett að fyrirtæki sem nýti úrræði ríkisins notfæri sér ekki skattaskjól. Varaþingflokksformaður Miðflokksins, Bergþór Ólason, segir meira máli skipta að aðgerðirnar gangi hratt fyrir sig en að þó verði líta til þess hve miklum fjárhæðum fyrirtækin hafi skilað til ríkisins.

Ekki er kveðið sérstaklega á um það í lögum um aðstoð frá ríkinu til fyrirtækja vegna afleiðinga kórónuveirufaraldursins, að þau hafi ekki notfært sér skattaskjól, né að þau hafi skráð raunverulega eigendur sína. Dönsk stjórnvöld hafa sett þau skilyrði að fyrirtæki þar í landi sem njóti stuðnings vegna faraldursins noti ekki skattaskjól.

Segir tímana núna sanna gildi samneyslunnar

„Þó að það sé nauðsynlegt að aðstoða fyrirtæki á þessum erfiðu tímum þá sýna þessir tímar líka gildi samneyslunnar og við verðum að gera þá kröfu um að hér hafi fyrirtæki greitt til hennar allt það sem þau eiga að greiða, þannig að ákvæði um skattaskjól eiga tvímælalaust að koma inn,“ segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.  

Mynd með færslu
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.  Mynd: RÚV

Telur ríkisstjórnina ekki hafa svör

Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, er sama sinnis og segir ríkisstjórnina hafa sögulegt tækifæri til að koma á sjálfbærari og ábyrgari vinnumarkaði og stuðlað þannig að því að næsta uppsveifla verði byggð á sjálfbærni og náttúruvernd. „Þau geta gert það með því að setja sjálfsögð og eðlileg skilyrði um samfélagslega ábyrgð fyrir ríkisstuðningi til fyrirtækja og þar með talið einmitt að þar séu ekki peningar færðir í skattaskjól og aðrar leiðir sem er hægt að fara. En það virðist vera núna að ríkisstjórnin virðist ekki hafa svör við því hvernig samfélag við viljum byggja þegar þessi kreppa er afstaðin,“ segir Halldóra. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Telur erfitt að draga línuna

Bergþór Ólason, varaformaður þingflokks Miðflokksins, segir aftur á móti að meira máli skipti að úrlausnir ríkisins séu einfaldar og gangi hratt fyrir sig. Ýmis skilyrði hafi verið sett í aðgerðapökkum ríkisstjórnarinnar. Frekar eigi að horfa til þess hve mikla fjármuni fyrirtækin hafi greitt til ríkisins síðustu misseri þegar verið sé að veita beina styrki. 

„Ég held að það verið mjög erfitt til að mynda, út af því að þú spyrð um skattaskjólin gagnvart þeim fyrirtækjum hér heima, sem eru í alþjóðlegum rekstri, að fara að greina það hvar á að draga línuna. Er alvarlegt mál að þau séu til dæmis með rekstur í Hollandi, Swiss, Bretlandi eða Belgíu svo ég nefni eitt af þeim fjórum ríkjum sem eru við toppinn á svokölluðum Corporate Tax Haven Index? spyr Bergþór. „Þannig að ég held að á þessum tímapunkti að við ættum ekki að festa okkur í slíkum vangaveltum en vissulega skiptir máli að öll þau fyrirtæki sem njóta stuðnings í gegnum aðgerðir stjórnvalda, séu raunverulegur hluti af íslensku samfélagi og séu að skila tekjum og gjöldum þangað inn.“

Telur skráningu eigenda ekki forgangsmál núna

Frestur til að skrá raunverulega eigendur fyrirtækja rann út  í byrjun mars og hafa yfir 80 prósent fyrirtækja lokið slíkri skráningu. Bergþór telur ekki mikilvægt að slík skráning verði skilyrði fyrir aðstoð frá ríkinu. „Ég hafði nú töluverðar efasemdir um þetta „Íslandsmeistaramót í tímasóun“ sem ég taldi vera þegar menn sátu hér og skráðu endanlega eigendur kirkjukóra og félagasamtaka landið um kring. Ég held að það ætti ekki að vera afbrigði sem við legðum mikla áherslu á í þessum bráðaaðgerðum sem nú eru nauðsynlegar.“

Segir óboðlegt að fyrirtæki hafi ekki skráð eigendur

Formaður Samfylkingarinnar er á öðru máli. „Menn áttu að gera grein fyrir því fyrir 1. mars þannig að það er nú engin afsökun þar. Þegar um er að ræða stór og þýðingarmikil fyrirtæki þá er auðvitað algjörlega óboðlegt að það sé ekki skýrt hverjir eru raunverulegir eigendur.