Sjónvarp- og kvikmyndaframleiðsla í frosti - nánast

28.04.2020 - 07:30
A man wearing a face mask walks past the closed El Capitan Theater amid the coronavirus pandemic in Hollywood, California, USA, 16 March 2020.
 Mynd: ETIENNE LAURENT - EPA-EFE
Þótt eigendur streymisveitna á borð við Netflix hafi það gott um þessar mundir og horfi á áskriftartölur hækka, sitja leikarar, leikstjórar, kvikmyndatökumenn, hljóðmenn heima í stofu og bíða eftir því að hjólin geti farið að snúast að nýju. Búið er að fresta fjölmörgum frumsýningum stórmynda og segja má að Hollywood skjálfi og nötri. En faraldurinn hefur þó ekki stöðvað göngu eins langlífasta sjónvarpsþáttar sögunnar.

Það eru fáir geirar í efnahagslífi heimsins sem Covid 19 hefur ekki haft áhrif á. Einn þeirra er kvikmynda- og sjónvarpsgeirinn. Þeir sem hjúfra sig í dýpsta stólinn til að horfa á alls konar sjónvarpsefni á streymisveitum hafa kannski ekki tekið eftir því, en því sem næst öll framleiðsla á kvikmyndum og sjónvarpsþáttum liggur nú niðri, aðallega vegna tveggja metra reglunnar sem er í gildi í flestum löndum í einhverri mynd. Leikarar, leikstjórar, kvikmyndatökumenn, hljóðmenn - allir sitja nú heima og bíða eftir að allt fari í samt lag aftur. Og svona hefur þetta verið í hátt í sex vikur.

Fjöldi frumsýninga frestast

Faraldurinn hefur hins vegar frestað frumsýningum á kvikmyndum, enda kvikmyndahús almennt lokuð. Þó að það sé auðvitað tekjutap, verða myndirnar bara frumsýndar þegar allt verður um garð gengið. Meðal mynda sem búið er að seinka frumsýningu á er nýja myndin með leðurblökumanninum sem heitir einfaldlega The Batman, Wonder Woman, teiknimyndin Scoob sem er um hina sígildu persónu Scooby doo, Mulan, framhaldið af Ghost Busters og önnur myndin um hina gulu vinulegu verur, Minions. Og nei, ég er ekki heldur að gleyma nýju James Bond myndinni, sem jafnframt er sú síðasta þar sem Daniel Craig leikur njósnara hennar hátignar.

Mynd með færslu
 Mynd: No Time To Die

Leikarar og leikstjórar sem eiga nóg að bíta og brenna örvænta kannski ekki sérstaklega yfir þessari stöðu. Öðru máli gegnir um aðra starfsmenn í bransanum sem margir hverjir eru verktakar. Í miðstöð þessarar framleiðslu, Hollywood, hafa menn verulegar áhyggjur. Menn óttast að þar gæti allt orðið stopp í nokkra mánuði, og það mynd ógna fjárhagslegri afkomu býsna margra í þessum geira.

Og þessi ótti er ekki ástæðulaus þar sem kvikmyndaframleiðendur hafa þegar gripið til ýmissa aðgerða. Disney varð fyrst til þess, sem er kannski ekki að undra þar sem þeir hafa ekki aðeins tekjur af kvikmyndum heldur líka skemmtigörðum sem hafa þurft að hætta starfsemi. Í byrjun vikunnar fóru allir starfsmenn sem ekki vinna bráðnauðsynleg störf í hlutastarf. Og búist er við að eftir eina til tvær vikur verði samningum við þá sem vinna við sjónvarpsframleiðslu þar sagt upp. ViacomCBS, sem varð til í desember við sameiningu þessara tveggja fyrirtækja, hefur sagt upp öllum verktakasamningum sem hefur áhrif á kapalstöðvar fyrirtækisins og Paramount kvikmyndaframleiðandann. Búist er við að þetta verði bara byrjunin. Kvikmyndaverin muni brátt segja upp tímabundnum samningum, jafnvel hjá fólki sem er í miðju kafi í tökum á þáttum.

Sjónvarpsstöðvar gætu líka lent í vandræðum. Bandarískar stöðvar á borð við NBS, CBS og FOX eru með fastmótaða áætlun um hvað verður sýnt hvenær - frá september til ágúst. Auglýsingasamningar eru svo gerðir í kringum þetta. Þeir hafa því ekki sama sveigjanleika og streymisveitur og kapalstöðvar. Til dæmi hefur upptökum á American Idol á ABC-sjónvarpsstöðinni verið hætt og því kemur líklega upp kúnstug staða þegar búið er að sýna allt efni en ekki alla þáttaröðina. Þá tapa sjónvarpsstöðvar líka miklu auglýsingatekjum á stöðunni - áætlað er að þær minnki um 12 milljörðum bandaríkjadala á fyrri helmingi þessa árs frá sama tíma í fyrra - ekki bara vegna sjónvarpþátta heldur líka vegna þess að það eru engar beinar íþróttaútsendingar, sem líka skila miklum auglýsingatekjum. Og þetta er bara í Bandaríkjunum - staðan er væntanlega ekki betri hjá öðrum sjónvarpsstöðum sem reiða sig á afþreyingarefni.

Þessi staða þýðir að margar sjónvarpsstöðvar eru farnar að vinna öðruvísi. Hingað til hafa þær áður en þær ákveða að einhver þáttaröð verður sýnd á einhverjum ákveðnum tíma sýnt sjálfstæðan þátt í þáttaröðinni til að láta reyna á hvort þátturinn falli í kramið. Þetta hefur verið kallað pilot á ensku. Það var einmitt þessi tími sem var í gangi þegar öllu var lokað, en hann stendur yfirleitt frá miðjum febrúar fram í byrjun maí.  Nú munu sjónvarpsstöðvarnar í auknum mæli sleppa þessu tilraunastigi og taka þáttaröðina beint til sýningar - en hvort það sé komið til að vera er ennþó óljóst.

Efnisskortur mögulegur hjá streymisveitum

Áhrifin eru ekki sýnileg hjá streymisveitum eins og Netflix og HBO. En eftir nokkra mánuði gæti komið minna af nýju efni en venjulega. Ekki er ljóst hvort það verði reynt að bregðast einhvern veginn við því - til dæmis með því að hægja á útgáfu þess efnis sem er tilbúið. En áskrift af streymisveitum hefur aukist verulega meðan á ástandinu hefur staðið þannig að þeim ætti allavega ekki að vanta tekjurnar til að borga fyrir framleiðslu á einhverju góðgæti.

Það sem margir hafa hins vegar áhyggjur af eru langtímaáhrifin af löngu framleiðslustoppi. Þar hafa menn ákveðna reynslu. Handritshöfundar fóru í tveggja mánaða verkfall frá nóvember tvö þúsund og sjö til febrúar tvö þúsund og átta, sem varð til þess að fjölmörg kvikmyndaver þurfti að segja upp samningum. Það tók nokkur ár fyrir markaðinn að ná sér eftir það. Hætt er við að áhrifin af þessum faraldri verði mun meiri fjárhagslega. Það er of snemmt að segja til um hversu hratt sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslan nær sér, en áhyggjur eru af því að sá tími verði enn lengri en eftir verkfall handritshöfunda.

En við skulum enda þetta samt á jákvæðum nótum. Það er þó að minnsta kosti hafnar tökur á einni þáttaröð eftir framleiðsluhlé vegna Covid 19 faraldursins. Það er hin vel þekkta ástralska sápuópera Neighbours, eða Grannar, sem hefur verið í framleiðslu samfleitt frá nítján hundruð áttatíu og fimm. Samneytið verður þó ekki jafn náið og venjulega - tveggja metra reglan verður viðhöfð, starfsliðinu verður skipt í hópa sem vinna hér og þar um myndverið og það verður auðvitað ekkert kossaflens. Og líkamshitinn verður mældur hjá öllum við hvern vinnudag. Ef þetta gengur upp, geta aðdáendur allavega gengið að þessum fasta punkti í tilverunni vísum - og kannski er þá komin leið til að láta framleiðslu svona efnis ganga upp.

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi