Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Segir samkomulag heyra sögunni til

28.04.2020 - 11:49
Erlent · Afríka · Líbía
epa08135159 Greek Foreign Ministrer Nikos Dendias (L) shakes hands with Commander of the Libyan National Army (LNA) Khalifa Haftar (R) during their meeting in Athens, Greece, 17 January 2020. Gen. Haftar is visiting Athens where he is expected to meet with Greek Prime Minister Mitsotakis.  EPA-EFE/YANNIS KOLESIDIS
Khalifa Haftar. Mynd: EPA-EFE - ANA-MPA
Líbíski stríðsherrann Khalifa Haftar segir að samkomulag sem gert var í Líbíu fyrir milligöngu Sameinuðu þjóðanna árið 2015 og miðaði að sátt milli fylkinga og þjóðarbrota í landinu heyrði nú sögunni til. Hann kveðst leggja áherslu á myndun nýrrar ríkisstjórnar í Líbíu, en andstæðingar hans segja að úti sé um tilraun hans til að leggja landið undir sig.

Haftar ávarpaði líbísku þjóðina í sjónvarpi í gær og kynnti þar áform sín. Hann fordæmdi fyrrnefnt samkomulag og kvað það ekki lengur hafa neitt vægi.

Hann nefndi ekki hvað yrði um þing það sem setið hefur í Benghazi í austurhluta landsins, en oft hefur verið stirt milli þess og Haftars þótt andúðin á alþjóðlega viðurkenndri stjórn í höfuðborginni Trípólí sé þeim sameiginleg.

Síðan í apríl í fyrra hafa sveitir Haftars gert harða sókn að Trípólí og reynt að ná henni á sitt vald. Haftar hefur notið stuðnings frá Rússum, Egyptum og Sameinaða arabíska furstadæminu, en Tyrkir styðja stjórnina í Trípólí.

Illa hefur gengið hjá Haftar að undanförnu og í gagnsókn stjórnarhersins í síðasta mánuði urðu sveitir hans að flýja frá nokkrum borgum og bæjum í vesturhluta landsins.

Sérfræðingar í málefnum Líbíu telja Haftar nú standa höllum fæti og að ávarpið í gær hafi verið örvæntingarfull tilraun til að vinna landsmenn á sitt band, en ráðamenn í Trípólí segja Haftar hvorki umhugað um pólitíska lausn né lýðræði í Líbíu.