Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Reyndi Hagen að setja á svið fullkominn glæp?

28.04.2020 - 17:03
Erlent · Glæpir · Morð · Noregur
Mynd með færslu
 Mynd:
Frá Noregi bárust í morgun fréttir um að undarlegasta mannrán síðari tíma væri upplýst – eða svo gott sem. Anne Elísabet Hagen hvarf fyrir hálfu öðru ári og mannræningjar sagðir krefjast lausnargjalds. Núna er eiginmaður hennar, einn ríkasti maður Noregs, grunaður um að hafa sett allt á svið og blekkt lögreglu mánuðum saman.

Tom Hagen handtekinn

Núna lítur svo út sem Tom Hagen hafi reynt að setja á svið hinn fullkoma glæp: Morðið þar sem líkið fyndist aldrei og að lögregla væru með miklu tækniliði í mörgum löndum út í móa að fylgja sporum sem svo voru bara blekking og tilbúningur. 

Þó er – ef marka má annars fáorðar upplýsingar frá lögreglunni – margt enn á huldu um hvernig Anna Elisabet Hagen, þá 68 ára gömul heimavinnandi húsmóðir i værukæru úthverfi austan Óslóar, hefði horfið.

Tommy Börske lögreglufulltrúi hefur stýrt rannsókninni í 18 mánuði en lét nú í morgun handtaka Tom Hagen, eiginmann Önnu Elísabetar, grunaðan um morð eða aðild að morði. 

Mynd með færslu
Leit að Anne-Elisabeth Hagen hefur engan árangur borið. Mynd: EPA - RÚV
Anna Elísabet Hagen

Í upphafi leit út sem að þetta væri mannrán með auðgun að markmiði, sagði lögreglufulltrúinn og vísar þar í að á heimili þeirra hjóna  fannst kröfubréf eftir að hún hvarf og beðið um lausnarfé greiddu í rafmyntinni Monero. 
Bréfið var skrifað á bjagaðri norsku og engin leið að hafa samband við mannræningjana nema með því að millifæra rafmynt. 

Lögreglan efaðist um framburð Hagen frá fyrstu stundu

En allt frá fyrstu stund þegar Tom Hagen tilkynnti lögreglu um hvarf konu sinnar hafa verið efasemdir um tilvist mannræningjanna. Í fyrsta lagi er Tom Hagen ekki áberandi ríkur – þó á lista yfir þá tvöhundruð ríkustu í landinu – en þau hjón hafa alltaf haft mjög hægt um sig, ekki borist á, og aldrei verið umtöluð sem ríkt fólk. Af hverju ættu einhverjir útlendingar einmitt að fá augastað á þeim en ekki áberandi ríkum mönnum.

Þá virtist sem mannræningjunum lægi ekkert á að fá peningana. Yfireitt vilja mannræningja fá lausnargjaldið strax og áður en lögregla finnur nokkur spor. Í þessu tilviki voru samskiptin stopul og engar endurnýjaðar kröfur um lausnargjald í heilt ár. Þetta tvennt er nóg til að grunur fór að beinast að eiginmanninum – og í alvöru glæpasögum er eiginmaðurinn yfirleitt morðinginn.

Hleraði síma og kom fyrir hlustunartækjum

Upplýst er að lögregla hóf síðasta sumar að fylgjast sérstaklega með Tom Hagen, hlera síma hans og koma hlustunartækjum fyrir heima og í vinnunni. Í nærri ár hafa grunsemdir beinst að honum en sannanir skort.
Enn sem komið er hefur lögreglan ekki viljað upplýsa hvort sönnunargögn, sem taki af öll tvímæli um sekt eiginmannsins, hafi fundist. Aðeins að grunur gegn honum hafi styrkst jafnt og þétt síðasta árið og að aðrir mögleikar hafa ýmist verið útilokaðir en taldir ólíklegir.

Hugsanlega fleiri að verki

Eins og málið lítur út núna er afar ólíklegt að hún hafi orðið fyrir slysi, veikst eða látið sig hverfa eða stytt sér aldur, sagði Tommy Bröske í dag og þannig hefur tekist að útiloka mögulegar skýringar á hvarfi hennar. Eftir sem áður en alls óljóst hvað varð um konuna - hvar er líkið nema að hún sé enn á lífi? 
Og umfram allt virtist sem fleiri en einn hafi verið að verki. Það fundust merki um átök í húsi þeirra, blóð, og fótspor eftir skó sem ekki voru á heimilinu. Og nákvæmlega klukkan 9.14 daginn sem Anna Elisabet hvarf hringdi einn úr fjölskyldunni í hana. Hún var heima en eiginmaðurinn í vinnunni. Engin merki eru um að hann hafi komið heim fyrr en síðdegis. Þetta þykir benda til að fleiri hafi verið að verki. Lögreglan útilokar ekki þann möguleika. Leitin að líki og vitorðsmönnum heldur áfram.