Play tilbúið að taka á loft þegar aðstæður leyfa

28.04.2020 - 01:57
Mynd með færslu
 Mynd: Play
Flugfélagið Play getur hafið starfsemi um leið og aðstæður leyfa. Samkvæmt heimildum ferðamálavefsins Túrista væri félagið tekið til starfa nú þegar ef samgöngur væru með eðlilegum hætti.

Túristi kveðst einnig hafa heimildir fyrir því að Play geti stækkað hratt við sig vegna aðstæðna á flugmarkaði. Margar nýlegar Airbus vélar eru fáanlegar með tiltölulega litlum fyrirvara. Fyrsta flugvélin er samt reiðubúin að taka á loft um leið og samgöngur komast í fyrra horf. 

Fyrstu áfangastaðir samkvæmt áætlun Play verða Kaupmannahöfn, Lundúnir, París, Tenerife og Alicante. Norska flugfélagið Norwegian hefur verið nokkuð umsvifamikið í ferðum frá Íslandi til spænsku borganna. Túristi bendir á að samkvæmt nýrri viðskiptaáætlun félagsins séu þær ferðir ekki fyrirhugaðar næstu mánuði.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi