Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Múlaberg svipt veiðileyfi vegna brottkasts

28.04.2020 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd: Ingvar Erlingsson
Skuttogarinn Múlaberg frá Siglufirði var sviptur veiðileyfi í tvær vikur eftir að háseti um borð var staðinn að brottkasti. Skipstjórinn fullyrðir að þetta hafi aðeins verið nokkrir fiskar.

Múlabergið var á gullkarfaveiðum á Reykjaneshrygg í febrúar þegar afla var kastað í sjóinn.

Eftirlitsmaður Fiskistofu stóð skipverja að verki

Emil Magnússon, sem var afleysingarskipstjóri í þeirri veiðiferð, segir að eftirlitsmaður Fiskistofu hafi staðið skipverja að brottkasti og hafi sýnt sér upptöku af því. Hann hafi þá strax rætt við hásetann og brýnt fyrir honum að brottkast liðist ekki um borð. Skipverjinn sé ekki fastur maður í áhöfn Múlabergs en hafi verið kallaður í afleysingar þegar háseti forfallaðist rétt fyrir brottför.

Segir að þetta hafi aðeins verið nokkrir fiskar

Emil segir að þetta hafi aðeins verið nokkrir fiskar, sem skipti svo sem ekki máli. Reglugerðin sé skýr og það eigi að koma með allan fisk í land og við brottkast sé enginn munur á einum fiski eða tíu tonnum. Hann segist hafa séð einn ufsa á myndbandi hjá eftirlitsmanninum og tvo eða þrjá þorska, en getur ekki fullyrt hvort meira hafi farið í sjóinn. Ólafur Marteinsson, framkvæmdastjóri Ramma sem gerir Múlabergið út, segir í samtali við vefmiðilinn Trölla að skipverjinn hafi einnig hent aukategundum eins og geirnyt og gjölni.

Fréttastofa hefur óskað eftir frekari gögnum frá Fiskistofu. Múlabergið var svift veiðileyfi í tvær vikur og liggur nú í höfn á Siglufirði.