Bandaríkin styðja innlimun landtökubyggða

Mynd með færslu
Byggingaframkvæmdir í Har Homa landtökubyggðunum í Austur-Jerúsalem. Mynd: EPA
Bandaríkjastjórn er reiðubúin að samþykkja innlimun Ísraels á stórum hluta Vesturbakkans. Talsmaður utanríkisráðuneytisins greindi frá þessu. Þó er þess óskað að ný ríkisstjórn Ísraels hefji samningaviðræður við Palestínu.

Benjamin Netanyahu tók skýrt fram í kosningabaráttu sinni að hann vildi innlima Vesturbakkann. Hann verður forsætisráðherra næsta hálfa annað árið, eftir að þeir Benny Gantz komust að samkomulagi um að mynda stjórn. Palestínumenn segja innlimun Vesturbakkans koma í veg fyrir tveggja ríkja lausn fyrir botni Miðjarðarhafs. 

Samkvæmt áætlun Bandaríkjastjórnar um Miðausturlönd, sem Donald Trump forseti kynnti í janúar, er Ísraelsmönnum gefið grænt ljós á frekari landtöku á Vesturbakkanum. Samkvæmt stjórnarsáttmála Netanyahu og Gantz ætlar Ísraelsstjórn að ráðfæra sig við Bandaríkin áður en farið verður af stað.

Talsmaður utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna segir Bandaríkjastjórn standa þétt að baki Ísraela varðandi landtökubyggðir. Bandaríkin séu tilbúin að viðurkenna aðgerðir Ísraels og útvíkka sjálfstjórnarsvæði ríkisins. Eins styðji Bandaríkin að ísraelsk lög taki gildi á svæðum á Vesturbakkanum sem til stendur að færa undir Ísraelsríki. Þessi skref verði tekin í samræmi við áætlun Bandaríkjastjórnar um Miðausturlönd. 

Í áætluninni er kveðið á um að landtökubyggðir Ísraela á Vesturbakkanum verði viðurkenndar sem ísraelskt landsvæði. Önnur ríki líta á landtökubyggðirnar sem ólöglega yfirtöku á landareign. Palestínumenn eiga að fá yfirráð á ákveðnu landsvæði, en án hervæðingar. Eins yrði höfuðborg Palestínu í útjaðri Jerúsalem, en borgin yrði öll á valdi Ísraels. Þá lofar Bandaríkjastjórn fjárfestingum í Palestínu ef ríkið samþykkir áætlunina.
Palestínumenn neita að semja við stjórn Trumps. Þeir segja hana hliðholla Ísrael. Áætlun Trumps hefur einnig mætt andstöðu Evrópusambandsins, vegna þess að hún komi í veg fyrir tveggja ríkja lausn. 

Arababandalagið heldur fjarfund í vikunni til þess að ræða innlimunaráætlun Ísraels.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi