Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

„Að vera í Hofi er eins og að lifa James Bond-mynd“

Mynd: RÚV / RÚV

„Að vera í Hofi er eins og að lifa James Bond-mynd“

28.04.2020 - 14:20

Höfundar

Akureyri er bær kvikmyndatónlistar og Sinfóníuhljómsveit Akureyrar er kvikmyndahljómsveit Íslands, að sögn Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar framkvæmdastjóra. Sveitin hefur í nægu að snúast í heimsfaraldri við að leika tónlist fyrir stærstu framleiðslurisa heims.

Sinfóníuhljómsveitin Sinfonia Nord á Akureyri stendur í ströngu um þessar mundir við að leika kvikmyndatónlist fyrir Hollywood. Vísir greindi frá því í gær að verkefni bærust í gríð og erg frá Netflix því hljómsveitin, sem er að taka upp fyrir þriðju Netflix myndina í röð, er ein af örfáum kvikmyndahljómsveitum sem er starfhæf. Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson framkvæmdastjóri sveitarinnar ræddi við Síðdegisútvarpið um hvernig síðustu mánuðir hafa verið í tónlistarlífinu fyrir norðan. 

Erlend kvikmyndaver hafa sýnt Íslandi mikinn áhuga síðustu daga. Yfirmaður hjá Netflix greindi frá því í síðustu viku að efnisveitan væri með framleiðslu í tveimur löndum: Suður Kóreu og á Íslandi þar sem vel hafi tekist að halda faraldrinum í skefjum. Netflix gerir strangar kröfur til að gera þeim kleift að vinna hér á landi í heimsfaraldri. Þorvaldur segir því litla hættu á smiti enda miðist vinnuaðstæður við að fyllsta öryggis sé gætt en þær séu líka nokkuð kostulegar. „Við erum búin að ráða Heilsuvernd og Securitas verði, við erum með hjúkrunarfræðinga og ræstifólk sem kemur og dauðhreinsar allt. Að vera í Hofi er svolítið eins og að lifa James Bond-mynd,“ segir Þorvaldur. Þegar gengið er inn taka verðir með grímu á móti hljóðfæraleikurum sem eru leiddir inn til hjúkrunarfræðings, þeir eru mældir og svara spurningalista. „Þá fyrst máttu fara inn í salinn að leika listir þínar.“

Samkomubanninu er svo fylgt innanhúss og aldrei fleiri en tuttugu manns í hverju rými. „Við pössum upp á það og það gengur fyrir. Við höfum það þannig að við tökum upp neðri strengi í fjóra tíma og svo efri í fjóra tíma,“ segir hann. „Hof er hannað eins og það sé hannað fyrir upptökur á kvikmyndatónlist þannig að við getum notað tvo sali í einu og upptökuherbergi þar sem upptökustjórarnir eru á annarri hæð. Hér er allt í ljósleiðurum og við byggðum fullkomið stúdíó fyrir nokkrum árum sem er að láta til sín taka.“

Hljómsveitin náði að klára að leika tónlistina fyrir Eurovison-mynd Wills Ferrell, sem er að hluta tekin upp á Íslandi, þegar skall á með samkomubanni svo það hefur verið nóg að gera allt árið. Verkefnastöðuna segir Þorvaldur reyndar hafa verið góða í kvikmyndabransanum alveg frá árinu 2015 þegar sveitin tók að sér fyrstu verkefnin með góðum árangri. „Við gerðum fyrst prufu með Gretu Salóme, með ameríska Disneyverkefnið hennar og það gekk svo vel að hann Atli Örvarsson kvikmyndatónskáld sem var nýfluttur hingað kom með Hollywood-mynd sem hét The Perfect Guy og var söluhæsta myndin í Bandaríkjunum í þrjár vikur. Þá byrjaði bara boltinn að rúlla og hvert verkefnið á fætur öðru kom,“ segir Þorvaldur.

Í fyrrasumar lék sveitin einnig tónlist fyrir tvö Netflix-verkefni og Þorvaldur segir ljóst að þau séu nú að uppskera fyrir vinnuna undanfarin ár. „Akureyri er bær kvikmyndatónlistarinnar. Við hikum ekki við að kalla Sinfóníuhljómsveit Norðurlands kvikmyndahljómsveit Íslands því við erum alveg búin að sérhæfa okkur í þessu.“

Rætt var við Þorvald Bjarna í Síðdegisúrvarpinu.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Hollywood horfir til Íslands eftir yfirlýsingu Netflix

Mannlíf

Netflix nýtir sér góðan árangur Íslands gegn COVID-19

Menningarefni

Will Ferrell setur Húsavík á hliðina