HS Veitur urðu til árið 2008 þegar Hitaveitu Suðurnesja var skipt í HS Orku og HS Veitur og annast fyrirtækið dreifingu á rafmagni, heitu og köldu vatni. Reykjanesbær er meirihlutaeigandi í HS Veitum með rúmlega 50 prósenta hlut, HSV eignarhaldsfélag á rúmlega þriðjungshlut á meðan Hafnarfjarðabær á rúmlega 15 prósent.
Skilar bænum 60 til 70 milljónum á ári
Fyrirtækið skilaði eins og hálfs milljarðs hagnaði í fyrra. Líkt og fyrri ár var ekki greiddur arður en félagið hefur undanfarin ár keypt eigin bréf fyrir hálfan milljarð sem hefur skilað Hafnarfjarðarbæ um 60 til 70 milljónum króna á ári.
Bæjarráð Hafnarfjarðar samþykkti á fimmtudaginn að hefja undirbúning að mögulegri sölu á hlut bæjarins í fyrirtækinu. Er það gert vegna áhrifa COVID-19, en útlit er fyrir að 5 til 6 milljarða halli verði á bæjarsjóði í ár.
„Það gefur augaleið að til þess að halda rekstrinum gangandi og þeim framkvæmdum sem við viljum hafa í gangi að þá þurfum við að leita allra leiða til þess að fá fjármagn inn og þetta er leiðin. Þetta er ein leiðin til þess að skoða hvað við fáum og við seljum ekki nema að við séum fullviss um að það sé hagstætt og við fáum ásættanlegt verð fyrir,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri.
Hluturinn metinn á 3 og hálfan milljarð
Rósa vill ekki svara því hvað sé ásættanlegt verð en bendir á að samkvæmt verðmati sem gert var í fyrra, í tengslum við sölu á sambærilegum hlut í fyrirtækinu, hafi verðmæti veitunnar verið metið um 23 milljarðar króna. Samkvæmt því gæti hlutur Hafnarfjarðar verið metinn á um þrjá og hálfan milljarð.
Rósa segir að salan hafi ekki áhrif á verð á rafmagni til Hafnfirðinga þar sem gjöld vegna dreifingar raforku séu bundin ströngum skilyrðum í lögum.
Ólíklegt að Reykjanesbær nýti forkaupsrétt
Aðrir hluthafar eiga forkaupsrétt á hlut Hafnarfjarðar. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ sagði málið líklega koma til kasta bæjarráðs á fimmtudaginn. Reykjanesbær fékk tilboð um að ganga inn í kaupin í fyrra en ákveðið hafi verið að aðhafast ekki. Á hann von á því að sama niðurstaða verði núna. Heiðar Guðjónsson, fulltrúi HSV eignarhaldsfélags, vildi ekki segja hvort forkaupsrétturinn yrði nýttur en það sé stjórnarinnar að ákveða slíkt.
Þarf miklu meiri umræðu
Efasemda gætir innan þeirra flokka sem skipa minnihlutann í Hafnarfirði. Sumir vilja bíða og sjá hvort stjórnvöld komi sveitarfélögum til aðstoðar áður en svo veigamikil ákvörðun er tekin og fulltrúi Samfylkingarinnar leggst gegn sölu á mikilvægum innviðum til einkaaðila. Þá hafi málið ekki fengið neina umræðu á vettvangi bæjarins. „Okkur finnst þetta þurfa miklu meiri umræðu. Það sést líka bara á viðbrögðum í samfélaginu við því, þegar fólk er að átta sig á þessum fréttaflutningi sem verið hefur, að fólki hugnast þetta ekki,“ segir Adda María Jóhannsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar.