Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Stórkostlegur leiðindapúki í jarðarför

Mynd: RÚV / RÚV

Stórkostlegur leiðindapúki í jarðarför

27.04.2020 - 15:10

Höfundar

Í Lestarklefanum að þessu sinni var þáttaröðin Jarðarförin mín til umfjöllunar. Gestir voru sammála um að þættirnir væru vel gerðir, en misgóðir þó. Þórhallur Sigurðsson, eða Laddi eins og hann er alltaf kallaður, fær sérstakt hrós og þykir vera stórkostlegur í hlutverki sínu sem hinn leiðinlegi Benedikt.

Í þáttunum fylgjast áhorfendur með Benedikt, sem fær þær fréttir í upphafi þáttaraðarinnar að hann sé dauðvona sökum heilaæxlis. Hann þurfi á uppskurði að halda sem að öllum líkindum dragi hann til dauða. Hann ákveður því að halda jarðarför sína áður en hann leggst undir hnífinn. Þórgnýr Dýrfjörð, deildarstjóri á Akureyrarstofu, segir að þættirnir hafi lagst fjarskalega vel í sig og segir hann þetta vera hugljúfa seríu. „Þetta eru auðvitað misgóðir þættir og misskýrir karakterar og svona. En í heildina fannst mér þetta ákaflega vel lukkað.“ Þórgnýr segist jafnframt hafa séð ákveðna línu á milli persónu Ladda í þáttunum og persónu Arnars Jónssonar í Sveinsstykki. „Báðir komnir á endastöð en í mjög ólíkri stöðu. Munurinn kannski sá að í tilfelli Sveinsstykkisins hafði maður ekki samúð með söguhetjunnii en samúðin bara óx og óx í tilfelli persónu Ladda.“

Gestir Lestarklefans voru sammála um að Laddi stæði sig mjög vel í að draga fram hversu leiðinleg persóna hans átti að vera í þáttunum. Katrín Elvarsdóttir, listakona, tók undir með Þórgný að þættirnir væru missgóðir. „Sammála að þættirnir séu misgóðir, stundum fannst mér eins og það mætti hoppa yfir nokkrar senur. Sex þættir en hefði verið hægt að gera þetta í fjórum.” Katrín hrósaði einnig Birtu Hall sem leikur barnabarn Benedikts sem og tónlist þáttarins. „Mér fannst unga stúlkan, Birta Hall, alveg meiriháttar og þeirra samband og svo þessi tónlist, íslensk gömul tónlist sett í mismunandi búning. Sum lögin komu fyrir tvisvar, í mismunandi útsetningum með mismunandi flytjendum. Mér fannst það vel heppnað líka.”

Þórunn Ósk Marínósdóttir, tónlistarkona, bendir einnig á hversu skemmtilegt kynslóðarbil kemur fram í þáttunum. „Hann er algjörlega fulltrúi sinnar kynslóðar”, segir hún um Benedikt, persónu Ladda. „Hann er ekki bara leiðinlegur forpokaður karl. Það er skýrt í þessum þáttum að verið er að draga fram samtal milli kynslóða. Þegar hann er að tala við son sinn og tengdadóttur, þau eru að reyna að gera honum grein fyrir að þau vantar pening fyrir húsnæði. Það samtal er stórkostlegt. Ekki eins og þetta sé faðir að tala til sonar. Eins og það séu að minnsta kosti tvær til þrjár kynslóðir á milli. Algjör gjá á milli hvernig hugsunarhátturinn er. Hann er gamaldags fyrir sína kynslóð, hann Benedikt, og sonur hans steríótýpískur ungur maður í dag og konan hans áhrifavaldur.”

Þórgnýr tekur undir það að þetta sé samtal á milli kynslóða. „Þetta er líka pæling að kasta lífi sínu á glæ. Mér fannst ég sjá það aðeins í öðru ljósi en maður er vanur. Yfirleitt einhver sem fer illa með líf sitt af einhverjum ástæðum. Einhver sem notar fíkniefni of mikið eða sólundar peningum. Þarna vorum við með sérstakt dæmi um hvernig er hægt að kasta lífi sínu á glæ af því maður er á stöðugum flótta undan öllum mögulegum sársauka.” Þórunn tekur undir og bætir við: „Það gengur ekki að fara í gegnum lífið án þess að gera upp tilfinningarnar. Kannski ekki endalaust hægt að sópa undir teppið.”

Tengdar fréttir

Tónlist

„Er þetta kría? Er þetta Súpermann?“