Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir hróplegt ósamræmi í úthlutun úr framkvæmdasjóði

Mynd með færslu
 Mynd:
Sveitarstjóri Blönduósbæjar gagnrýnir úthlutun úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða og segir hróplegt ósamræmi í henni. Af 500 milljónum runnu tæpar 34 til verkefna í landshlutanum.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða, sem er í vörslu Ferðamálastofu, veitir styrki til 33 verkefna um allt land árið 2020 sem nema samtals 501,5 milljónum króna. Alls bárust sjóðnum 134 umsóknir að þessu sinni með styrkbeiðnum upp á 2,3 milljarða. Sveitarfélög á Norðurlandi vestra hafa lýst yfir vonbrigðum með úthlutunina. Af 500 milljónum runnu tæpar 34 til landshlutans.

Valdimar O. Hermannsson sveitarstjóri Blönduósbæjar segir þau mjög ósátt, ósamræmið milli landshluta sé mikið. „Landshlutinn er að reyna að byggja upp ferðamannastaði eins og aðrir landshlutar, við erum ekki að ætlast til þess að fá neitt meira en aðrir heldur sé tekið tillit til þess að við fáum svona jafnvel eitthvað til jafns“ segir hann. Hann setur þann fyrirvara að hann viti ekki heildarfjölda umsókna en hann viti að fjölmörg verkefni hafi ekki fengið úthlutun og efast um að gæði umsóknanna hafi verið verri. 

Samanburður milli landshluta ekki góður

Aukaúthlutun úr sjóðnum var 200 milljónir og segir Valdimar marga hafa vonast eftir því að fá úthlutun úr seinni umferðinni en enginn styrkur rann til verkefna á  Norðurlandi vestra. „Hvort sem skýringin er svona COVID-mótvægi þá breytir það því ekki að samanburður milli landshluta er ekki góður“.

Mikilvægt að fá ferðamenn til að stoppa 

Enginn styrkur rann til Blönduósbæjar í ár. Áður fékk Fólkvangurinn í Hrútey úthlutun, þar hefur aðeins verið lokið við fyrsta áfanga af þremur. Því var vonast eftir framhaldssstyrk. „Það var nú einhver setning um að þetta væri ekki knýjandi verkefni en fyrir tveimur árum var þetta samþykkt verkefni í þremur áföngum og það hefur ekkert breyst síðan þá. Þetta er knýjandi verkefni fyrir okkur“ segir Valdimar. Mikilvægt sé að byggja upp ferðamannastaði í landshlutanum, þannig að ferðamenn hafi tilefni til að stoppa en ekki bara keyra í gegn.

Um þrír milljarðar í uppbyggingu innviða

Gert er ráð fyrir að um þrír milljarðar renni til verkefnaáætlunar Landsáætlunar um uppbyggingu innviða næstu þrjú árin. Hér má sjá Verkefnaáætlun 2020-2022. Umsóknir er metnar eftir matskerfi og fimm verkefni á Norðurlandi vestra skipta þessum 34 milljónum á milli sín, fimm verkefni á Suðvesturlandi skipta 92 milljónum. Norðurland eystra fær 340 milljónir til þrettán verkefna. Vesturland fær 219 milljónir til 16 verkefna. Vestfirðir fá 140 milljónir í sex verkefni. Þá fær Austurland 115 milljónir í sex verkefni. 37 verkefni skipta milli sín einum og hálfum milljarði á Suðurlandi.