Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Millilandaflug í óvissu en innanlandsflugið aukið

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Alls óvíst er hvað tekur við í millilandaflugi Icelandair eftir 5. maí, þegar samningur félagsins við íslenska ríkið rennur út. Hins vegar er stefnt að því að fjölga flugferðum innanlands eftir 5. maí.

Íslensk stjórnvöld gerðu samning við Icelandair, sem gengur út á að tryggja lágmarks flugsamgöngur til og frá landinu á meðan kórónuveirufaraldurinn gengur yfir. Samkvæmt samningnum flýgur félagið reglulega til Stokkhólms, Lundúna og Boston, en þessar flugtengingar eru meðal annars taldar nauðsynlegar til þess að tryggja að íslenskir ríkisborgarar sem staddir eru erlendis geti komist heim. Ríkið greiðir að hámarki hundrað milljónir króna vegna samningsins. Sá samningur sem nú er í gildi rennur út 5. maí.

Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair er enn óljóst hvað gerist varðandi millilandaflugið eftir 5. maí. „Flugáætlun í millilandaflugi í maí liggur ekki fyrir, en eins og fram hefur komið erum við með samning við íslenska ríkið til 5. maí um regluleg flug til ákveðinna áfangastaða eins og þú vísar í,“ segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, í svari við fyrirspurn fréttastofu.

Þegar Ásdís er spurð hvort viðræður við stjórnvöld um framhaldið hafi farið fram svarar hún:

„Þetta er það eina sem við getum sagt á þessu stigi varðandi millilandaflugið.“

Daglega til Egilsstaða

Töluverð fækkun hefur orðið í flugferðum innanlands hjá Air Iceland Connect síðan faraldurinn skall á. Þannig hefur aðeins verið flogið einu sinni á dag milli Reykjavíkur og Akureyrar, og aðeins tvisvar til fjórum sinnum í viku til Egilsstaða og Ísafjarðar. Ásdís segir að til standi að fjölga þessum ferðum.

„Varðandi innanlandsflugið þá stefnum við að því að auka flug til Egilsstaða frá 5. maí og hefja þá aftur dagleg flug þangað. Áfram er gert ráð fyrir 3-4 flugum í viku til Ísafjarðar og við gerum einnig ráð fyrir að flugin til Akureyrar fari upp í 2 flug á dag aftur. Þetta er stefnan en getur þó tekið breytingum þegar nær dregur,“ segir Ásdís.