Johnson mættur - andstæðingarnir líka

27.04.2020 - 18:43
Mynd: EPA-EFE / EPA
Boris Johnson forsætisráðherra Breta er mættur í vinnuna eftir að veikjast illa af COVID-19 veirunni. Verkefnin verða ærin, ekki síst því það eru ólíkar skoðanir í ríkisstjórninni hvenær og hvernig eigi að aflétta samkomubanni. En svona byrjaði forsætisráðherra vinnudaginn, með því að ávarpa þjóðina af hlaði Downingstrætis.

Ávarp í morgunsárið

Þannig byrjaði dagurinn í Bretlandi í dag, með ávarpi Boris Johnson forsætisráðherra í morgunsárið. Ávarpið markaði persónulegan viðsnúning hans eftir að hafa verið frá vinnu undanfarnar þrjár vikur vegna COVID-19, þar af nokkra daga á gjörgæsludeild. Örlítið andstuttur en að öðru leyti uppfullur af hressandi bjartsýnisboðskap eins og honum er tamt. Bjartsýni, sem oft er án sýnilegra forsenda. Og nú vill inniþreytt þjóðin kannski gjarnan fá eitthvað bitastæðara.

Veiran og götuþjófurinn

,,Ef þessi veira væri árásarmaður, óvæntur og ósýnilegur götuþjófur, sem ég get reyndar sagt ykkur af eigin reynslu að hún er, þá er þetta stundin þegar við höfum í sameiningu byrjað að snúa hana niður,“ sagði forsætisráðherra. Hvað sem segja má um myndlíkinguna, ýmsar útleggingar á henni eftir ræðuna, þá benti ráðherrann á að nú gæti verið lag, nýr kafli en reyndar líka áhætta. Til dæmis hætta á nýrri veirubylgju og þá nýjum bönnum. Einmitt það sem forsætisráðherra vill hindra.

Forsætisráðherra lofar gagnsæi – sem hefur skort hingað til

Forsætisráðherra vill því fara ofur varlega. Þegar þessi hætta verður að baki, dauðsföllum fækkar, heilbrigðiskerfið utan hættu, smitum fækkar, nóg af hlífðarbúnaði og skimun og engin hætta á öðrum faraldri, þessar fimm viðmiðanir stjórnarinnar, þá verður hægt að fara að lyfta hömlum, sagði forsætisráðherra. Ræsa þá hreyfla hagkerfisins einn af öðrum – en þá kemur líka að erfiðum ákvörðunum. Hversu fljótt eða seint það gerist eða hvenær lætur Johnson ekki uppi. Meira um þetta á næstu dögum, sagði forsætisráðherra sem lofar fyllsta gagnsæi um væntanlegar ákvarðanir. – Skortur á gagnsæi er eitt af því sem ríkisstjórnin er gagnrýnd fyrir. Bretar eru því ekki miklu nær í dag en í gær en verða það kannski næstu daga ef marka má orð forsætisráðherra.

Vorgróska í getgátum

Það er vorgróska í getgátunum um hvernig hömlum verði aflétt. Líklega áframhaldandi skilyrði um tvo metra milli fólks á almannafærum og vinnustöðum. Ein hugmyndin er að eldra fólk einangri sig áfram, sem manar fram raddir um aldursmismunum. Einnig rætt að einstakir landshlutar lúti mismunandi hömlum, í samræmi við tíðni veirusmita. Hið athyglisverða er að bæði Skotland og Wales hafa kynnt sínar áætlanir. Þetta ergir mjög ríkisstjórnina sem vill halda landinu samstíga.

Engin augljós sinnaskipti forsætisráðherra

Ýmsir höfðu velt fyrir sér að forsætisráðherra yrði kannski breyttur maður eftir að hafa verið við dauðans dyr. Það var þó ekkert sem benti til verulegra sinnaskipta í morgunávarpinu. Hann nefndi  afrek stjórnarinnar sem hefði haldið hlífiskildi yfir heilbrigðiskerfinu og heilbrigðisstéttunum. Ýmsir telja að orðið ,,afrek“ sé ekki við hæfi í þessu sambandi, því veiruváin hefur gert mun meiri usla í Bretlandi en í ýmsum nágrannalöndum.

Hörð gagnrýni heilbrigðisstétta ekki nefnd

Forsætisráðherra nefndi heldur ekki harða gagnrýni heilbrigðisstétta sem telja einmitt að stjórnin hafi ekki skýlt þeim sem skyldi. Þar vantar bæði hlífðarbúnað og skimun. Og vandinn er að það verður erfitt að lyfta hömlum ef ekki er skimun og smitrakning til að berja veiruna niður ef tilfellum fjölgaði aftur.

Breska stjórnin er ekki einhuga um hvernig eigi að létta hömlum

Það er vitað að stjórnin er ekki alveg einhuga. Matt Hancock heilbrigðisráðherra virðist á sama máli og forsætisráðherra, vill í engu fara sér óðslega. Rishi Sunak fjármálaráðherra á sér einnig stuðningsmenn sem eru langeygir eftir áætlun um að losa atvinnulífið úr hömlum. Þetta ku margir þingmenn Íhaldsflokksins heyra frá kjósendum, úr atvinnulífinu og frá styrktaraðilum flokksins.

Og svo er það Brexit

Þegar forsætisráðherra mætir í vikulegan fyrirspurnartíma í þinginu á miðvikudaginn þarf hann að svara spurningum nýs leiðtoga Verkamannaflokksins og stjórnarandstöðunnar, Keir Starmers sem er mun fastari fyrir en forveri hans Jeremy Corbyn. Nýr kafli stjórnmálasögunnar að hefjast. Og svo er Brexit öldungis ekki búið.

Erfitt að leggja bann á þjóðina, enn erfiðara að létta því

Breska stjórnin var sein til aðgerða gegn COVID-19 veirunni og veittist erfitt 23. mars að leggja strangar hömlur á þjóðina. Nú þegar blasir við að það þurfi að ákveða hvernig eigi að losa um þessar hömlur sýnist það í raun miklu erfiðara, flóknara og sársaukafyllra verk að létta hömlunum sem þó var svo erfitt að koma á. 

 

sigrunda's picture
Sigrún Davíðsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi