Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segja Kim Jong-Un við góða heilsu

26.04.2020 - 19:31
Erlent · Asía
epa05193444 (FILE) A picture dated 12 January 2016 released by North Korea's state-run Rodong Sinmun newspaper, shows North Korean leader Kim Jong-un speaking during a ceremony at the meeting hall of the Central Committee of the Workers' Party
 Mynd: EPA - YONHAP/RODONG SINMUN
Ráðamenn í Suður-Kóreu fullyrða að Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu, sé við góða heilsu en mikið hefur verið fjallað um heilsufar hans um helgina. Hann var sagður alvarlega veikur og jafnvel látinn og fjölmiðlar víða um heim fjallað um það hver tæki við eftir hans dag.

Óstaðfestar fregnir bárust strax í byrjun þessarar viku um að Kim Jong-Un væri alvarlega veikur og jafnvel látinn. Ekkert hefur fengist staðfest en kínverskir sérfræðilæknar fóru í gær til Norður-Kóreu, að því er talið var til að hlúa að leiðtoganum eftir hjartaaðgerð sem hann undirgekkst um miðjan mánuðinn.

Þegar var farið að velta því upp hver tæki við af leiðtoganum og hvort dauði hans hefði áhrif á stjórnarfar landsins en Kim-fjölskyldan hefur verið við völd síðan 1948. Talið er næsta víst að Kim Jong-Un eigi börn, en þau eru líklega of ung til að taka við og flestum þykir líklegast að systir hans, Kim Yo-Jong, sé næst í röðinni. En flestum sérfræðingum í málefnum Norður-Kóreu ber saman um að hún nyti ekki stuðnings hersins, og gæti aldrei haldið völdum, fyrst og fremst vegna þess að hún er kona. Robert Kelly, stjórnmálafræðingur í Suður-Kóreu, segir að ef leiðtoginn væri þungt haldinn yrði líklega reynt að finna eftirmann áður en það yrði tilkynnt opinberlega að eitthvað amaði að „Miðað við hið mikla umtal og þögn Norður-Kóreu og Kína giska ég á að líklega glími hann við einhvern heilsubrest, sem þarf svo sem ekki að koma á óvart. Hann glímir við offitu, reykir og hefur fengið þvagsýrugigt. En ef hann er dáinn er ég ekki viss um að það yrði tilkynnt strax,“ segir Kelly. 

Ekki er víst hvort það sé nokkur fótur fyrir þessum fregnum. Ríkisfjölmiðlar í Norður-Kóreu birtu í dag yfirlýsingar frá leiðtoganum og Moon Chung-In, aðstoðarmaður forseta Suður-Kóreu, sagði við bandaríska fjölmiðla síðdegis í dag að ekkert bendi til annars en Kim Jong-Un sé við góða heilsu. 
 

 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV