Rjómasósur og nautafillet víkja fyrir kjöti í karrí

Hráir kjötbitar í matvörubúð.
 Mynd: Koos Schwaneberg - Freeimages
Sala á íslenskri matvöru hefur ekki aukist í kórónuveirufaraldrinum heldur breyst, segir Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtakanna. „Veitingastaðavöðvarnir fara síður. Fólk er meira í því að borða sígilda íslenska kjötsúpu og kjöt í karrí eins og í gamla daga,“ segir Gunnar. Þá seljist minna af rjóma en meira af venjulegri mjólk. Stjórnvöld og atvinnulíf ætla að ráðast í sameiginlegt kynningarátak í því skyni að auka sölu á íslenskum vörum og þjónustu.

Stjórnvöld verja 100 milljónum króna í átakið. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir að atvinnulífið bæti 62,5 milljónum króna við. Átakið verði fyrst og fremst í formi auglýsinga og verði hrint í framkvæmd eftir viku eða svo. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

„Það er sannarlega þörf á því að ráðast í svona átak þar sem landsmenn allir eru hvattir til að skipta við innlend fyrirtæki,“ segir Sigurður. Um 53 þúsund manns eru án vinnu að hluta eða öllu leyti. Sigurður segir að með átaki vonist menn til þess að verja störf og helst að fjölga þeim. Jafnframt að auka verðmætasköpun og efnahagslegan stöðugleika.

Sigurður segir að heilt yfir hafi eftirspurn dregist talsvert saman. Landsmenn séu hvattir til að kaupa íslenska matvöru, ýmiss konar framleiðslu, þjónustu og hugbúnaðarlausnir. Þá er fólk hvatt til að skipta við innlenda verslun og ferðast innanlands í sumar.

„Að samningnum standa atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök fjármálafyrirtækja, Samorka og Bændasamtök Íslands,“ að því er kemur fram á vef Stjórnarráðsins.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV

Fólk kaupir síður ostakökur en meira af kókómjólk

Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtakanna, segir það sjást vel í sölutölum að fólk fer síður á veitingastaði og er meira heima við að elda. Minna seljist af rjómatengdum vörum eins og oskakökum og sjálfum rjómanum. „Fólk er minna í því að búa til rjómasósur,“ segir Gunnar. Sala á venjulegri mjólk og kókómjólk hafi hins vegar aukist. Súpukjötið sæki á en fínni vöðvar eins og lamba- og nautafillet seljist minna en áður. Ekki sé unnt að merkja aukna sölu á íslensku grænmeti enda hafi það verið svo um nokkurt skeið að meira og minna allt sem framleitt er selst. 

Frestun ferminga dró ekki úr blómasölu

Gunnar segir að garðyrkjubændur hafi óttast að blómasala myndi dragast verulega saman vegna þess að fermingum var frestað. En það varð ekki raunin. „Það er greinilegt að Íslendingar eru heima og vilja hafa huggulegt í kringum sig,“ segir Gunnar. Þó hafi selst minna af útiblómum í pottum eins og litlum páskaliljum. „En það var náttúrulega skítviðri um páskana,“ segir Gunnar.

Hann er ánægður með samkomulagið við stjórnvöld um kynningarátakið. „Bændasamtökin fagna svona víðtæku samkomulagi. Við þurfum að standa vörð um íslenskar vörur,“ segir Gunnar. 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi