
Lýsa yfir sjálfstjórn í Suður-Jemen
Hreyfing aðskilnaðarsinna í sunnanverðri Jemen, STC, saka stjórnvöld um spillingu og óstjórn. Ríkisstjórnin nýtur stuðnings Sádi-Araba og alþjóðasamfélagsins. Sameinuðu arabísku furstadæmin styðja hins vegar STC. Hingað til hefur STC stutt ríkisstjórnina. Þessi aðgerð flækir enn stöðuna í landinu, sem var viðkvæm fyrir. STC hefur barist við hlið stjórnarhersins gegn uppreisnarhreyfingu Húta, sem hefur yfirráð yfir stóru svæði á norðanverðu landinu. Þrátt fyrir að hafa staðið saman gegn Hútum líta aðskilnaðarsinnar svo á að Suður-Jemen eigi að vera sjálfstætt ríki, líkt og það var áður en ríkið var sameinað í eitt árið 1990.
Al Jazeera hefur eftir Mohammed al-Hadhrami, utanríkisráðherra Jemens, að þetta útspil STC þýði að þeir hafi sagt sig frá friðarsamningi sem undirritaður var í Riyadh í nóvember. Þar var gert ráð fyrir því að STC og aðrar hreyfingar á suðurhluta Jemens yrðu með í ráðum við samsetningu þjóðþings, og allar vopnaðar hreyfingar yrðu færðar undir stjórn ríkisstjórnarinnar.
Tugþúsundir almennra borgara hafa fallið þau fimm ár sem borgarastríðið í Jemen hefur staðið yfir.