Jónsi, Krassasig og endurblandaður Bubbi

Mynd: Jónsi / Exhale

Jónsi, Krassasig og endurblandaður Bubbi

26.04.2020 - 15:07

Höfundar

Sunnudagur og sól í Undiröldunni að þessu sinni enda full ástæða til fagnaðarláta þar sem við fáum fyrsta sólólag frá Sigurósar-Jónsa í tíu ár, endurhljóðblandaðan Bubba, glænýtt lag frá Krassasig og fleira gott.

Jónsi - Exhale

Á föstudag gaf Jónsi út lagið Exhale sem er fyrsta sólóefnið sem hann gefur út í meira en áratug. Samhliða útgáfu lagsins frumsýndi Jónsi einnig tónlistarmyndband við lagið sem hann leikstýrði sjálfur ásamt Giovanni Ribisi. Upptökustjórn lagsins var í höndum Jónsa og A.G. Cook.


Bubbi ft Funk Harmony Park - 21 tafla

Fólk tekur sér ýmislegt fyrir hendur á COVID-tímum og hljómsveitin Funk Harmony Park dundaði sér við endurhljóðblöndun af laginu 21 tafla í samkomubanninu í samvinnu við Bubba Morthens. Lagið verður fáanlegt á streymisveitum þann 1. maí.


Krassasig - Einn dag í einu

Tónlistar- og fjöllistamaðurinn Kristinn Arnar Sigurðsson eða Krassasig gaf út lagið Einn dag í einu á föstudaginn. Lagið fjallar um vorið og draumana, að vera með einhvern á heilanum og að horfa fram á bjartari tíma. Krassasig samdi lagið og pródúseraði það. Magnús Jóhann leikur á píanó.


Oyama- Spare Room (Dirb remix)

Dirb hefur sent frá sér endurhljóðblöndu á laginu Spare Room sem kom út á dögunum með hljómsveitinni Oyama og er að finna á EP plötu þeirra Opaque Days. Einar Hrafn Stefánsson úr hljómsveitunum Hatara og Vök sá um endurhljóðblöndun.


Gummi Tóta - Út í geim

Út í geim er nýjasti poppslagari tónlistar- og knattspyrnumannsins Gumma Tóta en það kom út um miðjan apríl. Að sögn höfundar er laginu best lýst sem huggulegu sumarlagi með texta sem flestir geimfarar geta tengt við.


24/7 - Flýja ft Daniil

Á fimmtudag sendu 24/7 og Daniil frá sér lagið Flýja, en það er unnið í samstarfi við upptökustjórana Pálma Ragnar Ásgeirsson og Tómas Gauta Óttarsson.


Weekendson - The Blurry Brain

Hljómsveitin Weekendson sendi frá sér lagið The Blurry Brain í lok síðasta árs en sveitin er verkefni Jón Þórs Helgasonar sem spilar á gítar, bassa og hljóðgervlar og fær í lið með sér Gísla Kjaran Kristjánsson á trommur.