Johnson mættur aftur í Downingstræti

26.04.2020 - 23:33
Britain's Prime Minister Boris Johnson leaves Downing Street for the State Opening of Parliament by Queen Elizabeth II, in the House of Lords at the Palace of Westminster in London, Thursday, Dec. 19, 2019.(AP Photo/Frank Augstein)
 Mynd: AP
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, er snúinn aftur í ráðherrabústaðinn við Downingstræti 10. Ráðuneytið greindi frá þessu í kvöld. Johnson kemur aftur til starfa í fyrramálið, eftir að hafa jafnað sig af COVID-19 á einkaheimili sínu.

Johnson hefur verið fjarverandi síðustu tvær vikur eftir að hann var útskrifaður af sjúkrahúsi. Hann dvaldi í viku á sjúkrahúsi, þar af í þrjá daga á gjörgæsludeild þar sem hann þurfti aðstoð við að anda. Samkvæmt læknisráði gegndi Johnson engum embættisverkum á meðan hann jafnaði sig af veikindunum. Utanríkisráðherrann Dominic Raab stýrði ríkisstjórninni á meðan. Hann segir endurkomu forsætisráðherrans góða innspýtingu fyrir ríkisstjórnina og landið allt. Jafnframt þakkaði hann öðrum ráðherrum fyrir að bretta upp ermar á meðan Johnson var frá. 

Johnson fær engan aðlögunartíma eftir veikindin. Hann verður að gegna forystuhlutverki í baráttu Breta gegn kórónuveirufaraldrinum. Johnson hefur verið gagnrýndur fyrir sein viðbrögð við honum. Yfir 20 þúsund hafa látið lífið á breskum sjúkrahúsum af völdum kórónuveirunnar. Talið er að fjöldi látinna sé mun meiri, þar sem dauðsföll á dvalarheimilum og í heimahúsum eru ekki inni í opinberum tölum bresku stjórnarinnar. Samkvæmt útreikningum Financial Times gætu yfir 40 þúsund verið látnir í Bretlandi af völdum veirunnar. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi