Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ferðaþjónustan í Eyjum treystir á þjóðhátíð í sumar

26.04.2020 - 15:04
Mynd með færslu
 Mynd: Ólöf Ragnarsdóttir - Aðsend mynd
Formaður Ferðamálasamtaka Vestmannaeyja segir mikið undir þjóðhátíð og stórum fótboltamótum sem haldin eru í Eynni á sumrin. Vestmannaeyjabær ætlar að fara í markaðsátak fyrir tólf milljónir til að laða Íslendinga þangað.

Til stendur að halda tvö stór fótboltamót í Vestmannaeyjum í júní. Eftir fjórða maí verður leyfilegt að halda íþróttamót barna á grunnskólastigi án áhorfenda. Sóttvarnarlæknir hefur lagt til að samkomur verði takmarkaðar við tvö þúsund manns að hámarki, að minnsta kosti út ágúst. 

„Við verðum bara sjá og bíða aðeins hvernig sumarið verður. Við dæmum ekkert fyrir fram. Við gefumst ekki upp. Þetta veltur á mótunum og þjóðhátíðinni fyrir okkur í Eyjum,“ segir Berglind Sigmarsdóttir formaður ferðamálasamtaka Vestmannaeyja.

Hún segir að það hefði gríðarleg áhrif ef það þyrfti að fresta fótboltamótunum eða þjóðhátíð vegna fjöldatakmarkana. Eru einhver fyrirtæki jafnvel í hættu ef svo fer? „Já, það er engin spurning.“

Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri í Vestmannaeyjum heldur í vonina að hægt verði að halda þjóðhátíð með breyttu sniði. „Sumarið hefur verið okkar toppur og gert mikið fyrir þessi fyrirtæki til að þau geti starfað á ársgrundvelli. Ég vona bara það besta. Við höldum í vonina að við getum gert þessa hluti með einhverjum hætti. Þó að það verði öðruvísi en venjulega,“ segir Íris.

Eins og annars staðar treysta fyrirtæki í Vestmannaeyjum á ferðalög Íslendinga innanlands í sumar.  „Við erum að fara í stórt markaðsátak með ferðaþjónustunni í Vestmannaeyjum. Það kosta 12 milljónir þetta átak,“ segir hún jafnframt.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV