Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Verra en nokkurt stríð

Mynd: Angustura / Angustura

Verra en nokkurt stríð

25.04.2020 - 08:00

Höfundar

Skáldsagan Litla land eftir rithöfundinn og tónlistarmanninn Gaël Faye kom út á frönsku árið 2016 og sló algerlega í gegn. Bókin hefur selst í 800 þúsund eintökum í Frakklandi og verið þýdd á þrjátíu tungumál. Faye hefur fengið fjölda viðurkenninga fyrir verkið, sem gerist í Búrúndí og Rúanda í Afríku í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar, á tímum borgarastríðs og þjóðarmorðs. Verkið er komið út hjá forlaginu Angústúru í íslenskri þýðingu Rannveigar Sigurgeirsdóttur.

„Ég heillaðist algjörlega af henni þegar ég las hana fyrst,“ segir þýðandinn Rannveig Sigurgeirsdóttir um skáldsöguna Litla land (Petit pays), „og hef aldrei lent í því áður, að ég kláraði bókina, stóð upp, settist við tölvuna og byrjaði að þýða.“ Við erum stödd í Bújúmbúra, höfuðborg Afríkuríkisins Búrúndí, þar sem höfundurinn fæddist árið 1982, á tíunda áratug síðustu aldar. Gabríel er tíu ára gamall, hann býr með foreldrum sínum og yngri systur í úthverfi borgarinnar. Fjölskyldan er vel stæð, móðirin flóttakona frá Rúanda en faðirinn franskur athafnamaður. Dagarnir líða við mangótínslu, slæping, og hangs, meðal annars í yfirgefnu Volkswagen-rúgbrauði þar sem vinirnir í „botnlanganum“ drepa tímann, hlusta á Peter Tosh, reykja ódýrar sígarettur og sötra bjór. En ógnin er ekki langt undan. Árið er 1993, það skellur á borgarastríð í Búrúndi, og yfirvofandi er þjóðarmorðið í nágrannaríkinu Rúanda sem átti sér stað á þremur löngum mánuðum, hundrað dögum, í apríl og fram í júlí árið 1994, þegar ein milljón Tútsa var leidd til slátrunar. Hútúar og Tútsar höfðu lengi átt í rimmu, en þegar forsetar beggja landa voru myrtir hófst ofbeldið fyrir alvöru. Og skyndilega hrynur heimur hins unga Gabríels. Tuttugu árum eftir hryllinginn snýr hann aftur til gamla landsins til þess eins að komast að því að ekkert getur orðið aftur eins og það var. Leiðarstef skáldsögunnar: Þetta var verra en nokkurt stríð.

Ólík nef

Rannveig Sigurgeirsdóttir segir að skáldsagan Litla land tali einkar vel inn í samtímann, hún sé tímabær. „Það er jú flóttamannastraumur um allan heim í dag og móðir söguhetjunnar var flóttamaður frá Rúanda. Við gleymum svo oft í daglegu tali að þessir flóttamenn áttu sér allir líf, áttu sér allir fjölskyldu, vini og þetta daglega líf sem er að svo mörgu leyti líkt okkar lífi.“ Þótt borgarastríðið í Búrúndí og þjóðarmorðið í Rúanda séu í bakgrunni verksins fjallar það ekki síst um hvunndaginn, friðinn á undan stríðinu, líf fólks á stað sem virðist eins langt frá ógnum stríðs og hugsast getur. Rannveig segir bókina fjalla um þær breytingar sem eru að verða í þjóðfélaginu og hinn tíu ára gamli Gaby á erfitt með að skilja. „Eins og kemur fram í byrjun bókarinnar þegar hann er að lýsa því hvernig pabbi hans reyndi að útskýra þennan ófrið fyrir honum. Drengurinn spyr, já ókei, Tútsar og Hútúar tala ekki sama tungumál? Jú, jú þeir tala sama tungumál. En bíddu, þeir eiga þá ekki sama land? Jú, jú þeir eiga sama land. En bíddu, trúa þeir þá á einhvern annan guð? Nei, nei, þeir trúa alveg á sama guðinn. En bíddu, af hverju eru þeir þá í stríði? Ja, sko, þeir eru ekki með eins nef.“ Ólgan milli þjóðflokka Hútúa og Tútsa átti sér eins og áður segir langa sögu áður en það keyrði um þverbak árið 1994 og hryllingurinn blasti við. Og allt snerist þetta um valdabaráttu. „Þetta voru ekki vel skilgreindir ættflokkar því þetta var til búið af belgískum nýlenduherrum. Ef Hútúa gekk vel í lífinu þá gat hann unnið sig upp í að vera Tútsi. Það var ekkert í útliti eða í tungumáli eða nokkur skapaður hlutur sem í raun og veru aðskildi þessa ættbálka. Tútsarnir voru alltaf við völd þó að þeir væru í miklum minnihluta. Þetta var í raun og veru valdabarátta frekar en ættbálkaerjur.“

Höfundurinn Gaël Faye er vinsæll tónlistarmaður, stjarna í franska rapp- og hipphopp-heiminum. Útgefandinn uppgötvaði hann eftir að hafa heyrt rapptexta hans og falaðist í kjölfarið eftir skáldsögu. Þegar Faye hafði fundið hið bernska sjónarhorn skrifaði hann bókina á þremur mánuðum í kjölfar hryðjuverkanna í París árið 2015. Litla land er fyrsta skáldsaga Fayes sem býr og starfar í Kígalí, höfuðborg Rúanda, og París. Þótt finna megi mörg líkindi með sögum þeirra Gabríels og Fayes, báðir alast til dæmis upp í Búrúndi og flýja ungir til Frakklands, hefur höfundurinn lagt ríka áherslu á að Litla land sé ekki sjálfsævisaga. Kvikmynd hefur nú verið gerð eftir sögunni og verður hún frumsýnd í Frakklandi í ágúst.

Stríð eiga sér langan aðdraganda

Ofbeldið sigrar í verki Fayes. Það brýtur sér leið inn í friðsæla veröld Gabríels, á endanum sjá drengirnir sig knúna til að grípa til vopna í því skyni að verja hverfið sitt. „Það er einhvern veginn eins og það sé í mannlegu eðli að grípa til vopna eða einhvers konar átaka í staðinn fyrir að reyna að ræða hlutina. Og þar kemur líka þessi hræðsla við hið óþekkta sem er svo djúpt í okkar eðli, innsta eðli.“ Faye hefur lýst því í viðtölum að hann sé að skrifa um æskuna, sakleysið, kynþætti og útlegð, en þó ekki endilega útlegð frá heimalandi heldur útlegð frá þeim heimi bernskunnar sem við yfirgefum öll og endurheimtum aldrei. Hann hefur einnig lagt á það áherslu að stríð eigi sér ævinlega langan aðdraganda, í skáldsögunni Litla landi sé hann að skrifa um það hvernig stríð hefjast. „Áður en ofbeldið hefst fyrir alvöru er það til staðar í orðum, látbragði, viðhorfum, samböndum. Það hefst aldrei með skyndilegri sprengingu. Og ef við erum ekki gætin, í sambandi við það hvernig við notum orð, hvaða pólitísku ákvarðanir eru teknar, getur stríð orðið að veruleika.“ Rannveig Sigurgeirsdóttir segir þennan boðskap mikilvægan, hér og nú. „Maður sér það alls staðar, hvort sem það er á Facebook, í kommentakerfunum eða aðsendum greinum hingað og þangað, út um allan heim, því miður er þetta að koma mikið upp í Evrópu, tölum ekki um Bandaríkin og Brasilíu, þannig að þetta er eitthvað sem við verðum að hafa í huga, og við verðum að læra af sögunni.“ 

Litla land er ellefta bókin sem kemur út í áskriftarröð bókaforlagsins Angústúru. Eftirmála um tilurð og sögusvið verksins skrifar Maríanna Clara Lúthersdóttir. Rætt var við Rannveigu Sigurgeirsdóttur í Víðsjá. 

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Glæpur við fæðingu – Trevor Noah

Bókmenntir

Mögnuð innsýn í líf ástríðufullra vísindamanna

Bókmenntir

Stórsaga sem minnir á Íslendingasögur

Bókmenntir

Eiturlyfjaheimurinn með augum barns