Sendiherra baðst undan tilflutningi og er á heimleið

25.04.2020 - 11:56
Mynd með færslu
 Mynd: Þorfinnur Ómarsson, EFTA
Gunnar Pálsson, sendiherra Íslands í Brussel, er á leið heim og kemur til starfa í utanríkisráðuneytinu á ný í sumar. Hann baðst undan tilflutningi á aðra sendiskrifstofu og er því á heimleið, samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu.

Í Morgunblaðinu í dag var greint frá því að Gunnar hefði verið kallaður heim strax eftir að hafa sent inn afar gagnrýna umsögn um frumvarpsdrög utanríkisráðherra um breytingar á skipun sendiherra. 

Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu var Gunnari tilkynnt þann 11. mars að flytja ætti hann á nýja sendiskrifstofu. Átti það að vera hluti af stærri tilfærslum í utanríkisþjónustunni sem tilkynnt verður um á næstunni. Umsögn Gunnars um frumvarpið birtist í samráðsgátt stjórnvalda fimm dögum síðar, þann 16. mars.

Ráðuneytið áréttar að Gunnar er enn sendiherra Íslands í Brussel þó hann komi á ný til starfa í ráðuneytinu hér heima í sumar.

Óvenjulegt að ráðherra setji lög á sjálfan sig

Í frumvarpsdrögum utanríkisráðherra er gert ráð fyrir því að sendiherrastöður verði framvegis auglýstar til umsóknar. Til þessa hefur ráðherra haft frjálsar hendur við skipan sendiherra og eru engar sérstakar hæfniskröfur gerðar til sendiherra umfram það sem almennt tíðkast og eru embætti þeirra undanskilin auglýsingaskyldu. Þá er boðað þak á fjölda sendiherra.

Í umsögn Gunnars um frumvarpið segir að það væri líklegt til að veikja stöðu utanríkisþjónustunnar og auka tortryggni í samfélaginu gagnvart starfsmönnum hennar. Þá veltir Gunnar því upp að fyrst breyta eigi því með lögum að ráðherra skipi sendiherra, að full ástæða virðist vera til að rannsaka nánar hvort ráðherrar hafi farið illa með þetta vald og jafnvel gerst sekir um spillingu.

Að auki sé það óvenjulegt að sitjandi ráðherra skuli telja sig þurfa að setja lög á sjálfan sig til að takmarka hugsanlega spillingu sem falist gæti í því að úthluta sendiherraembættum til utanaðkomandi án auglýsingar. 

Þá sé óútskýrt hvernig utanríkisþjónustan eigi að axla aukið forystuhlutverk fyrirsvari í alþjóðlegum loftslagsmálum, norðurslóðamálum, auðlindamálum og auðlindum hafsins ef á sama tíma eigi að fækka í röðum þeirra starfsmanna sem mesta reynslu hafa af störfum á alþjóðlegum vettvangi. 

Þá segir Gunnar frumvarpið vera illa rökstutt, ruglingslegt og mótsagnakennt. Hann leggur til að það verði dregið til baka og þess í stað ráðist í yfirgripsmeiri skoðun á starfsháttum utanríkisþjónustunnar.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi