Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Plokkið er „ávanabindandi að vissu leyti“ segir Guðni

25.04.2020 - 13:52
Mynd: Mynd: Mummi Lú / Mynd: Mummi Lú
Fólk um allt land tínir upp rusl í dag og hefur dagurinn verið nefndur Stóri plokkdagurinn. Í dag er líka dagur umhverfisins. Forsetahjónin og umhverfisráðherra hreinsuðu sígarettustubba og annað rusl af lóð Landspítalans í morgun. „Þetta er ávanabindandi að vissu leyti,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sem plokkaði í morgun og ekki í fyrsta sinn.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, mátti vart vera að því að spjalla við fréttamenn svo önnum kafinn var hann við plokkið.

Er þetta ávanabindandi?

„Þetta er ávanabindandi að vissu leyti. Það sem er kannski hætt við að gerist er að manni fallist hendur. En ef maður setur sér raunhæft markmið þá er hægt að gera svo mikið. Svo finnum að ef margir setja sér raunhæf markmið sem hægt er að ná, þá áður en maður veit af sér maður árangur erfiðisins,“ segir Guðni. 

Svavar Hávarðsson, sem plokkar í gríð og erg ásamt Atla syni sínum, fékk hugmyndina að því að heilbrigðisstarfsfólki væru sýndar þakkið með því að plokka í kringum heilbrigðisstofnanir. 

„Í gær var kona úti á Bessastaðanesi sem gekk vinsælan hring þarna eins og svo margir gera. Að hringnum loknum var hún með 4-5 poka. Það er ekki af því að við séum svona miklir ofursóðar. Þetta fýkur líka. Við Íslendingar erum upp til hópa meðvitaðir um það að við eigum að ganga vel um umhverfið og það er lofsvert. En það verður samt ekki við það ráðið að rusl fýkur og sumir falla í þá freistni að halda að þó að þeir láti frá sér smávegis rusl þá taki enginn eftir því. En sú er ekki raunin,“ segir Guðni. 
 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV