Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Býst við að 90% starfsfólks Icelandair missi vinnuna

25.04.2020 - 12:25
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Viðbúið er að níutíu prósentum starfsfólks Icelandair verði sagt upp störfum fyrir mánaðamót. Þetta segir Jón Þór Þorvaldsson, formaður Félags íslenksra atvinnuflugmanna. Nú þegar eru 92% starfsmanna á hlutabótaleiðinni, það er í skertu starfshlutfalli og fá að hluta til atvinnuleysisbætur.

„Það er náttúrulega vont fyrir fólk að bíða vegna þess að það er ekki búið að segja neinum hverjir fá uppsagnarbréf. Þetta er stór hópur sem vinnur á hinum ýmsu sviðum fyrirtækisins,“ segir Jón Þór.

Óttist þið ekki að það verði 9 af hverjum 10 sagt upp?

„Jú, það má alveg leiða líkum að því þar sem þetta er hlutfallið af þeim sem eru komnir á hlutabótaleið. Svo eru einhverjir sem hafa ekki verið á hlutabótaleiðinni en hafa tekið á sig skerðingu launa eins og t.a.m. flugmenn. Auðvitað má búast við því að þetta geti verið tölurnar,“ segir Jón Þór.

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson