Umferð um hringveginn minnkaði um þriðjung í mars

24.04.2020 - 10:05
Mynd með færslu
Þjóðvegur 1, við Vatnsdalshóla. Mynd: Dagný Hulda Erlendsdóttir - RÚV
Umferð á hringveginum minnkaði um þriðjung í mars samanborið við sama mánuð í fyrra, að því er fram kemur í skammtímahagvísum ferðaþjónustu á vef Hagstofunnar. Samkvæmt umferðarteljurum Vegagerðarinnar dróst umferð saman um 31 prósent á Suðurlandi og Vesturlandi, um 33 prósent á Austurlandi og 36 prósent á Norðurlandi.

Verulegur samdráttur var í gistinóttum hótela í mars, að því er fram kemur á vef Hagstofunnar. Samkvæmt bráðabirgðatölum voru 181.000 gistinætur á hótelum í mars. Það jafngildir 53 prósenta fækkun samanborið við mars í fyrra. Rúmanýting var um 25,3 prósent í mars samanborið við 56,8 prósent í sama mánuði í fyrra.

Farþegum sem fóru um Keflavíkurflugvöll í mars fækkaði um 55 prósent milli ára. Tæplega 96.000 farþegar fóru frá landinu í gegnum Keflavíkurflugvöll í mars. Þar af voru um 80.000 farþegar með erlent ríkisfang og tæplega 16.000 þúsund farþegar með íslensk vegabréf. Í mars í fyrra voru brottfararfarþegarnir 213.000 og fækkaði þeim því um 55 prósent á milli ára. Íslenskum farþegum fækkaði um 64 prósent á meðan farþegum með erlent ríkisfang fækkaði um 53 prósent á sama tímabili.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi