Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Trump vill tilraunir með sterk ljós og sótthreinsi

24.04.2020 - 05:12
epa08380832 (L-R) Senior Official Performing the Duties of the Under Secretary for Science and Technology Bill Bryan, US President Donald J. Trump and US Vice President Mike Pence are joined by members of the Coronavirus Task Force to deliver remarks on the COVID-19 pandemic in the James S. Brady Press Briefing Room of the White House in Washington, DC, USA, 23 April 2020.  EPA-EFE/MICHAEL REYNOLDS / POOL
 Mynd: EPA-EFE - EPA POOL
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, lagði það til í gærkvöld að rannsakað yrði hvort hægt væri að sigrast á kórónuveirunni með því að dæla sótthreinsivökva í líkamann. Hugmyndina bar hann upp á upplýsingafundi Hvíta hússins um kórónuveirufaraldurinn í gærkvöld. Alma Möller landlæknir og bandarískir læknar benda á að það sé stórhættulegt að innbyrða sótthreinsandi efni.

Starfandi yfirmaður vísinda- og tæknideildar heimavarnarráðuneytisins, William Bryan, greindi frá niðurstöðum rannsóknar á fundinum í gærkvöld þar sem í ljós kom að sólarljós og hiti, auk sótthreinsis, veiki veiruna. Eins sýndi rannsóknin fram á að klór drepi veiruna í munnvatni á innan við fimm mínútum, og ísóprópýlalkóhól drepi hana enn hraðar. Ísóprópýlalkóhól er einnig hægt að nota sem frostlög. 

Trump fór í púltið á eftir Bryan og sagði að frekari rannsókna væri ef til vill þörf. Hann lagði meðal annars til að prófað yrði að lýsa með útfjólubláu eða mjög sterku ljósi á líkama fólks sem er veikt af kórónuveirunni. Hann beindi orðum sínum að Deboruh Birx, sem er yfir viðbragðsteymi Hvíta hússins vegna kórónuveirufaraldursins. Eins lagði hann til að gerðar yrðu tilraunir með að koma ljósinu inn í líkamann, hvernig sem það yrði gert. „Hljómar áhugavert," sagði forsetinn við vangaveltum sínum.

Þá vatt hann orðum sínum að sótthreinsi. Slíkur vökvi geti drepið veiruna snögglega, og velti hann því þá fyrir sér hvort það væri hægt að hreinsa líkamann innan frá með því að dæla sótthreinsivökva inn í hann. Hann sló þó þann varnagla að hann væri ekki læknir, „en ég er, svona, maður sem er með góðan þið vitið hvað," bætti hann svo við og benti á höfuðið á sér.

Bandarískir læknar fóru margir hverjir á samfélagsmiðla til þess að vara fólk við því að innbyrða sótthreinsiefni eða klór, þar sem það getur verið lífshættulegt. Það sama gerðu þeir læknar sem fréttastofur vestanhafs leituðu til.

Rannsóknin sem Bryan greindi frá hefur ekki verið birt í vísindariti. Hann greindi ekki frá því hversu sterkt útfjólubláa ljósið þyrfti að vera eða á hvaða bylgjulengd ljósið var sem var notað í tilrauninni. Eins er ekki vitað hvort styrkurinn sé sambærilegur við þann sem sólarljósið gefur frá sér á sumrin. 
Fyrri rannsóknir hafa einnig sýnt að veirunni farnast betur í köldu og þurru loftslagi. Færri tilfelli í suðrænum löndum gæti því verið vegna hitans og rakans í loftinu þar. Til að mynda hafa innan við sjö þúsund tilfelli greins í Ástralíu og 77 látið lífið. 

Frétt uppfærð klukkan 17:23:
Rétt er að árétta að Alma Möller, landlæknir, auk fjölda bandaríska lækna, varar við hugmyndum um að innbyrða efni á borð við sótthreinsispritt, klór og frostlög. Þá hafa framleiðendur sótthreinsandi efna séð ástæðu til að ítreka að ekki eigi undir neinum kringumstæðum að innbyrða slík efni. 

 

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV