Telur að skipstjórnendur hefðu mátt sýna meiri aðgæslu

24.04.2020 - 17:48
Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir - RÚV
Rannsóknarnefnd samgönguslysa telur að skipstjórnandi Breiðafjarðarferjunnar Baldurs og skipstjóri þörungaskipsins Grettis hefðu báðir mátt sýna meiri aðgæslu þegar litlu mátti muna að árekstur yrði á Breiðafirði síðasta sumar. Nefndin segir þetta hafa verið „mjög alvarlegt atvik“ sem talstöðvarsamskipti hefðu getað komið í veg fyrir. Nefndin leitað til kennara við Skipstjórnarskólann vegna mjög ólíkra sjónarmiða í málinu.

Atvikið átti sér stað í ágúst á síðasta ári. Baldur var þá að sigla til Brjánslækjar og þegar skipið var vestur af Hrauneyjarklettum var Grettir þar á siglingu, einnig á norðurleið.

Í skýrslunni kemur fram að Baldur hafi dregið Gretti uppi og að báðir stjórnendur hafi þurft að gera ráðstafanir til að forða árekstri; Baldur með því að bakka en Grettir með því að beygja til stjórnborða. Minnsta fjarlægð milli skipanna var um tíu metrar.

Í skýrslunni er haft eftir skipstjóra Grettis að hann hafi ítrekað reynt að ná tali af skipstjóra Baldurs á tveimur rásum VHF talstöðvar en án árangurs.  Hann hefði náð tali af honum í síma eftir atvikið en þá hefði komið í ljós að skipstjórinn var ekki á staðnum og vissi ekki hvað hafði gerst. Hann sagðist hafa breytt stefnu til stjórnborða um leið og færi gafst vegna grynninga og að sú ákvörðun hefði komið í veg fyrir árekstur.

Skipstjórnandi Baldurs sagði skipstjóra Grettis aðeins einu sinni hafa haft samband í gegnum talstöð. Það hefði verið eftir atvikið.  Grettir hefði óvænt beygt til stjórnborða og í veg fyrir Baldur. Til að forða árekstri hafi því verið slegið af og vélin sett í afturábak.

Rannsóknarnefndin leitaði til kennara við Skipstjórnarskólann. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að báðir hafi þarna átt sök að máli. Skipstjórnandi Baldurs hefði átt að sýna meiri aðgæslu á siglingu sinni þar sem lítil fjarlægð hefði verið á milli skipanna og siglingaleiðin þröng. Skipstjóri Grettis hefði mátt vita að með því að snúa til stjórnborða í veg fyrir Baldur hafi hann verið að skapa áhættu á árekstri. 

Rannsóknarnefndin tekur undir þetta og segir að koma hefði mátt í veg fyrir atvikið ef skipstjórarnir hefðu rætt um fyrirætlanir sínar í talstöð.  Atvikið hafi verið mjög alvarlegt.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV