Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sætu sérvitringarnir

Mynd með færslu
 Mynd: Ljótu hálfvitarnir - Facebook

Sætu sérvitringarnir

24.04.2020 - 15:21

Höfundar

Gleðisveitin Ljótu hálfvitarnir úr Norðurþingi hefur sent frá sér plötuna Hótel Edda. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Dómur um Ljótu hálfvitana og við hæfi að vera með galgopalega, jafnvel kerknislega fyrirsögn. Ekki verra að dreifa sprúðlandi málskrúði, enda sveitin með háa greindar- sem gleðivísitölu, og ógleymanlegt er fulltrúar sveitarinnar lögðu mann og annan í Útsvari Ríkissjónvarpsins. En allt um það, rýnum aðeins í þessa plötu, sem er þeirra sjötta. Hótel Edda var unnin á Möðruvöllum í Hörgárdal í janúar á þessu ári, og var það Einar Vilberg sem kom upptökunum í endanlega mynd; var upptökustjórnandi og upptökumaður ásamt því að hljóðblanda og hljómjafna.

Samsláttur

Sveitin er skipuð níu manns, samsláttur vinahópa, bræðra og frænda af Norðurlandi, svona mestan partinn. Það er eitthvað alíslenskt við hana (þó svo að þeir vinni m.a. með írska þjóðlagatónlist) og sveitir af svipuðum toga eru t.d. Helgi og hljóðfæraleikararnir, The South River Band og Hvanndalsbræður. Merkilegt, allar þessar sveitir koma að norðan!? Það er svo sem hægt að teygja skilgreininguna, henda Kátum piltum og Geirfuglunum jafnvel í jöfnuna. Uppistaðan í þessu öllu er félagsskapur vina sem byrja á þeim enda fremur en þeim tónlistarlega, koma saman og skapa á eins hreinum forsendum og þær verða. Það er rómantík bundin í þetta, fölskvaleysi og frelsandi gáskabrögð. Smitandi spila- og lífsgleði.
Hálfvitar hafa með sönnu staðið sína plikt hvað þetta varðar í gegnum tíðina og Hótel Edda er engin undantekning á því. Það kennir ýmissa grasa í lögunum tólf sem plötuna prýða og meðlimir allir eða langflestir koma að söng sem lagasamningu. Platan hefst á titillaginu og þá kemur í ljós glettinn og mjög Hálfvitalegur orðaleikur. Nei, það er ekki verið að syngja um Edduhótelin, þetta er hótelið hans Edda, Eggerts Hilmarssonar, Hálfvita með meiru. Þessi hótelstjóri frá helvíti kynnir slotið sitt með bravúr en vistin yrði vísast aum held ég. Grallaraskapur sem setur tón plötunnar. Lögin eru samt ekki öll í einhverjum flippgír. „Við stöndum hér enn“, melódískt og vel samið lag, ber með sér birtu og yl en angurværð um leið. Tekið er ofan fyrir þeim sem dottnir eru af lífsins vagni um leið og þeim sem „eru hér enn“ er fagnað. Restin af plötunni sveiflast síðan til og frá á þessum skala. Lögin eru flestöll stutt (og þá er hægt að hlusta á þau aftur fyrr, eins og Baldur Ragnarsson, einn meðlima, benti svo snilldarlega á í sérstökum útvarpskynningum vegna plötunnar) og „Allir eru drasl“ er t.a.m. snúðug og nokk sérkennileg smíð, sungin af manni sem „líkar ekki almennt vel við menn“. Lagið „Ekki vera afundin“ er írskur stemmari alla leið á meðan „Ég fer á traktornum“ er trukkandi sveitapönk. „Dönsum eins og drýslar“ býr yfir kunnuglegum þjóðlagabrag Hálfvita en er lúmskt um leið. Glúrinn hljómagangur og melódíuinnsæi gott. Ég vil að lokum nefna það sem kalla mæti „meta“-eiginleika plötunnar, sjálfsvísun þar sem sveitin gerir hálfpartinn grín að sjálfri sér, a.m.k skvt. túlkun rýnis. „Fyrsta lag í spilun“ vísar í það er listamenn velja það lag sem vænlegast þykir í útvarpsspilun, og það þarf það þá að vera sérstaklega grípandi. Lagið sjálft er hins vegar allt annað en það. Sérkennilegur gangur í því, þunglamalegt jafnvel. Mér finnst þetta alveg sprenghlægilegur brandari. Annað dæmi, er lagið „Partí“, sem hljómar eins og það hafi verið samið á tíu sekúndum – og textinn um leið. Viljandi lélegt? Lagið er nottulega snilld einmitt vegna þessa, það þarf ekki að fjölyrða um það.

Gott

Jæja, þetta er orðið gott. Eins og sjá má er þessi plata fyrst og síðast skemmtileg. Lífsgleði og stuð stafar hreinlega af henni, og allt með sannferðugum hætti. Velkomin á Hótel Edda – vistin er mun vítamínbættari en hótelstjórinn sjálfur ýjar að.