Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Lögbanni á innheimtu smálána hafnað

24.04.2020 - 21:19
úr umfjöllun Kveiks um smálán.
 Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson
Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í dag lögbanni á innheimtu smálána í máli sem Neytendasamtökin höfðuðu gegn Almennri innheimtu ehf. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að Neytendasamtökin hefðu ekki heimild til að krefjast lögbanns á þeim grundvelli sem þau gerðu.

Síðasta haust fóru Neytendasamtökin fram á lögbann á innheimtu smálána sem fyrirtækið Almenn innheimta sinnir fyrir fyrirtækin E-content ehf. og Ecommerce2020. Þau hafa rekið smálánafyrirtæki sem veittu lán með hærri vöxtum og gjöldum en heimilt er samkvæmt íslenskum lögum.

Í tilkynningu frá Neytendasamtökunum kemur fram að ástæða þess að farið var fram á lögbannið væri að ekki hafi verið hægt að kæra starfsemina til eftirlitsaðila vegna undanþágu í innheimtulögum sem heimilar lögmönnum og fyrirtækjum í þeirra eigu að stunda innheimtustarfsemi. Almenn innheimta falli því ekki undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins og þarf ekki innheimtuleyfi.

„Almenn innheimta hefur ekki einungis innheimt hin ólögmætu lán heldur hefur fyrirtækið lagt háan innheimtu- og vanskilakostnað á slík lán og ítrekað hótað og sett lántakendur á vanskilaskrá standi þeir ekki í skilum,“ segir í tilkynningunni.

„Héraðsdómur telur að klúður í reglusetningu ráðherra komi í veg fyrir lögbann á innheimtu ólögmætra smálána. Héraðsdómur hefur því hafnað lögbanni. Ástæðan eru mistök við laga- og reglusmíð hjá stjórnvöldum. Ætlun löggjafans hafi verið að veita Neytendasamtökunum þessa heimild en vegna klúðurs stjórnvalda misfórst það,“ segir í tilkynningu samtakanna. Það sé óásættanlegt og þau íhugi því næstu skref.